Miðvikudagur, 7. apríl 2010
Sakaðir um að hafa stýrt Glitni í þrot
Nokkrir hluthafar og stjórnendur Glitnis eru ákærðir fyrir að hafa stýrt bankanum í þrot.DV greinir frá því í dag að málatilbúnaðurinn sé reistur á almennu skaðabótareglunni, en skaðabótaskylda getur vaknað hafi maður af gáleysi eða ásetningi bakað öðrum tjón með saknæmu eða ólögmætu hátterni. Skilanefnd og slitastjórn Glitnis krefst þess að þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson, sem voru á meðal stærstu eigenda bankans í gegnum FL Group, Lárus Welding fyrrverandi bankastjóri, og þrír núverandi starfsmenn Íslandsbanka, sem störfuðu áður hjá Glitni, greiði þrotabúi bankans um sex milljarða króna, fyrir að stýra bankanum í þrot. Starfsmenn Íslandsbanka hafa verið í leyfi frá störfum frá því að þeim voru birtar stefnurnar í málinu fyrir páska. Stefnurnar gegn sexmenningunum verða þingfestar í lok mánaðarins.
Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir að aðdragandinn sé sú rannsóknarvinna sem hafi farið fram innan slitastjórnar og skilanefndar Glitnis. Þar hafi margir komið að meðal annars fyrirtækið Kroll. Hann segist ekki geta tjáð sig um hvort fleiri svona mál séu áleiðinni. Það verði að koma í ljós seinna. Hann geti þó staðfest að starfi Kroll sé ekki lokið.
Skilanefnd Glitnis stefnir að því að boða til blaðamannafundar um mitt ár, þar sem erlenda ráðgjafafyrirtækið Kroll, mun gera grein fyrir rannsókn sinni, sem nú hefur staðið yfir í nokkra mánuði. Árni vill ekki staðfesta hvort fleiri viðlíka mál séu á leiðinni. Verið sé að skoða fjöldamörg mál í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til skilanefndar og slitastjórnar: að þær rannsaki þau mál sem líkleg séu til að færa fjármuni aftur til búsins.
Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, segir í yfirlýsingu að hann og aðrir starfsmenn bankans hafi unnið af fullum heilindum og í samræmi við heimildir sínar með það að markmiði að verja hagsmuni bankans. Lán til félagsins FS38 ehf. hafi að stærstum hluta verið framlenging á áður ótryggðu láni og að við þetta hafi tryggingastaða bankans batnað. Kröfugerð bankans á hendur sér sé ekki studd haldbærum rökum.(ruv.is)
Hið sama hlýtur að eiga við í hinum bönkunum,Kaupþingi og Landsbankanum.Leikmanni virðist ábyrgð stjórnenda Kaupþings jafnvel meiri en ábyrgð Glitnis.Það hefur ekki verið mikið um það hér á landi,að stjórnarmenn hlutafélaga,sem farið hafa í þrot, hafi verið dæmdir skaðabótaskyldir.Ég hefi ekki mikla trú á að það verði fremur gert í þessu tilviki.Fyrrum bankastjóri Glitnis,Lárus Welding,telur að fylgt hafi verið reglum við lánveitingu þá sem kært er út af.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.