Fimmtudagur, 8. apríl 2010
45% tapaðra starfa í mannvirkjagerð
Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í lok febrúar voru 20% atvinnulausra áður starfandi við mannvirkjagerð eða samtals rétt tæplega 3.000 manns. Þá eru ótalin þau störf í byggingariðnaði sem tapast hafa en eru ekki inn í þessum tölum m.a.vegna þess að þau voru unnin af erlendum farandverkamönnum sem hafa nú flutt af landi brott.
Þegar mest var um mitt ár 2008 var um það bil 11% af heildarvinnuafli starfandi við mannvirkjagerð eða tæplega 18.000 manns. Störfum í mannvirkjagerð fjölgaði mjög mikið frá árinu 2004 enda var mikið um fjárfestingu í mannvirkjum á því tímabili og verðhækkanir á íbúðarhúsnæði miklar. Núna má gera ráð fyrir að fjöldi þeirra sem vinna við mannvirkjagerð sé svipaður og var rétt fyrir síðustu aldamót eða um það bil 7,5% af heildarvinnuafli.
Alls bárust Vinnumálastofnun 3 tilkynningar um hópuppsagnir í marsmánuði þar sem sagt var upp 57 manns. Þetta er svipuð þróun og sést hefur það sem af er ári en fyrstu 3 mánuði ársins hafa að meðaltali 52 starfsmenn tapað vinnunni í hverjum mánuði í hópuppsögnum. Þannig hafa samtals 156 manns misst vinnuna í 10 hópuppsögnum það sem af er árinu.
Þetta eru mun færri hópuppsagnir en á sama tímabili fyrir ári síðan, þegar 524 misstu vinnuna í 17 hópuppsögnum. Það virðist því vera að hópuppsagnir séu á undanhaldi enda hefur nú gríðarleg endurskipulagning átt sér stað í atvinnulífinu í kjölfar breyttra aðstæðna. Frá því að bankahrunið varð hafa samtals 5.539 manns misst vinnuna í samtals 141 hópuppsögn. (visir,.is)
Þróunin er í rétta átt.Hópuppsagnir eru færri en áður og atvinnuleysið hefur minnkað örlítið.Betur má þó ef duga skal.Það verður að gera mikið átak í atvinnumálum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.