Eiga Íslendingar að fresta aðildarviðræðum við ESB?

Íslendingar þurfa að gera upp hug sinn og ákveða hvar þeir vilja vera í samfélagi þjóða. Það væri jafnvel betra að fresta yfirstandandi viðræðum við ESB en að halda þeim áfram í óvissu um hvert sé stefnt. Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra, í viðtali við Clemens Bomsdorf, blaðamann þýska Financial Times, sem birtist í gær á netsíðu hans, High North.

Blaðamaðurinn spyr Ingibjörgu hvernig hún meti líkindi þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. „Ég veit það ekki. Ég held að það verði ekki samþykkt í þjóðar­atkvæðagreiðslu. Þetta gæti breyst, en þá þurfum við einhvern til að berjast fyrir inngöngu. Það er enginn að því núna. Af hverju veit ég ekki. Kannski eru þau hrædd við að taka umræðuna því almenningsálitið er svolítið á móti öllu sem erlent er. Útlendingar eru vondu gæjarnir um þessar mundir. Að tala fyrir meiri samvinnu við ESB er ekki líklegt til vinsælda," segir Ingibjörg. Hún nefnir að ekki sé meirihluti fyrir aðild á Alþingi.

Misheppnaður Evrópuleiðangur og einangrun landsins sé það sem hún hafi mestar áhyggjur af og hugsi um daglega. Yngri kynslóðin og „besta fólkið okkar" muni ekki telja það góðan kost að búa á einangruðu Íslandi.
„Í gegnum aldirnar hefur okkur ávallt farnast best í samvinnu við önnur lönd," segir hún.

Í stað þess að skilgreina hagsmuni landsins og rækja samband við alla bandamenn sína séu Íslendingar „að gera þetta mjög illa. Við erum að stofna til slagsmála á hverjum vettvangi og ég held að það sé rangt. Við erum lítið land sem þarf á bandamönnum að halda," segir hún. Kjánalega hafi til að mynda verið farið með sambandið við Bandaríkjamenn, allar götur síðan um aldamót. Þrjóska hafi einkennt þau samskipti. Íslendingar hafi krafist þess að fjórar þotur skyldu vera á landinu, þegar öllum mátti vera ljóst að það þjónaði engum tilgangi.

Ingibjörg Sólrún hafnar því að velja skuli eina þjóð, svo sem Þýskaland eða Noreg, sem sérstaka vinaþjóð, komi það niður á sambandinu við aðrar þjóðir. Jafnvel hagsmunir Norðmanna geti verið andstæðir íslenskum.(vísir.is)

Björgvin Guðmnundsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband