Vildu hirða gróðann en láta almenning bera tapið!

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir að í grundvallaratriðum hafi verið rangt gefið í fjármálakerfinu. Ef vel gekk hafi eigendur grætt á tá og fingri, ef illa gekk hafi skattgreiðendur borgað brúsann. Slíkt sé algjörlega óviðunandi.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefur verið rædd á Alþingi í allan dag. Umræðan stendur enn og enn eru yfir tuttugu þingmenn á mælendaskrá. Þeir tveir ráðherrar sem sitja í ríkisstjórn utan flokka, Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon, hafa tekið þátt í umræðunni. Bæði fagna skýrslunni. Gylfi segir skýrsluna segja hrikalega sögu og hann telur hana verða tekna sem dæmi í útlöndum um hve illa geti farið.

Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar sagði í dag að það væri nöturleg niðurstaða að enginn þeirra 147 einstaklinga sem kallaðir voru fyrir rannsóknarnefndina telji sig eiga sök á hruninu eða ætli að axla ábyrgð.

Þingmenn Hreyfingarinnar mótmæltu umræðunni áður en hún hófst, í ljósi þess að allt of skammur tími væri liðinn frá útkomu skýrslunnar og vildu fresta henni.

Lilja Mósesdóttir þingmaður Vinstri grænna hvatti þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sérstaklega til að sitja í þingsal á meðan umræðan fari fram.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu, að skýrslan væri áfellisdómur yfir stjórnarráðinu, stjórnsýslunni og vinnubrögðum þeim tengdum. Hún segist binda vonir við vinnu nefndar undir forystu Önnu Kristínar Ólafsdóttur sem endurskoðar lög um Stjórnarráðið. Þeirri vinnu átti að ljúka nú í apríl en mun að öllum líkindum seinka þar sem taka þarf tillit til niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Þá kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra að skattrannsóknarstjóri fái aukin fjárframlög og verður starfsmönnum embættisins fjölgað um 20 til að efla skattrannsóknir.(ruv.is)

 

Athugasemd Gylfa Magnússonar er réttmæt: Það hefur verið einkenni græðgisstefnunnar,að menn hafa reynt að græða sem allra mest en þegar illa gengur og á móti blæs vilja menn velta tapinu yfir á ríkið.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband