7,6% atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi

Á fyrsta ársfjórðungi 2010 voru að meðaltali 13.600 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 7,6% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 9,4% hjá körlum og 5,7% hjá konum. Þegar litið er til aldurs var atvinnuleysið mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 16,4%. Frá fyrsta ársfjórðungi 2009 til fyrsta ársfjórðungs 2010 fjölgaði atvinnulausum um 900 manns.

Þessar niðurstöður eru meðal efnis í nýju hefti Hagtíðinda um vinnumarkað á fyrsta ársfjórðungi 2010 sem birt hefur verið á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að á fyrsta ársfjórðungi 2010 var atvinnuleysi 8,6% á höfuðborgarsvæðinu en 5,9% utan þess.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á fyrsta ársfjórðungi 2010 höfðu um 2.500 manns verið atvinnulausir svo lengi, eða um 18,1% atvinnulausra, en voru á sama tímabili 2009 um 600 manns.

Atvinnulausir teljast þeir sem ekki hafa atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið vinnu sem hefst innan 3 mánaða.

 

Fjöldi starfandi á fyrsta ársfjórðungi 2010 var 163.900 manns og fækkaði um 1.600 frá sama tíma ári áður. Á vinnumarkaði voru alls 177.500 manns sem jafngildir 79,7% atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttaka karla var 83,4% og kvenna 76%. Til þeirra sem eru á vinnumarkaði teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Fólk telst vera starfandi ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í viðmiðunarviku könnunar eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu.

Á fyrsta ársfjórðungi 2009 voru alls 178.200 á vinnumarkaði og atvinnuþátttaka mældist 79,5%. Atvinnuþátttaka karla var 83,3% og kvenna 75,5%.

Á fyrsta ársfjórðungi 2010 var meðalfjöldi vinnustunda 39 klst. hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 43,3 klst. hjá körlum en 34,2 klst. hjá konum. Meðalfjöldi vinnustunda hjá þeim sem voru í fullu starfi var 44,8 klst. en 22,4 klst. hjá þeim sem voru í hlutastarfi.

Á fyrsta ársfjórðungi 2009 var meðalfjöldi vinnustunda 38,9 klst., 43,3 klst. hjá körlum en 34 klst. hjá konum. Þeir sem voru í fullu starfi unnu 44,7 klst. að jafnaði en þeir sem voru í hlutastarfi unnu að jafnaði 21,4 klst. ( visir.is)

Samkvæmt þessu er atvinnuleysi að minnka og það er vel.Vonandi minnkar atvinnuleysið mikið með vorinu og í sumar.

 

Björgvin Guðmundsson

 





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband