Forsetaembættinu verða settar siðareglur

Embætti forseta Íslands verða settar siðareglur. Undirbúningur verksins er hafinn í stjórnarráðinu þar sem meðal annars hefur verið skoðað með hvaða hætti reglurnar verða festar í sessi. Kemur til álita að færa þær í lög um laun forsetans eða gefa þær út með forsetabréfi. Forsetabréf eru ein tegund stjórnsýslufyrirmæla en aðrar eru forsetaúrskurðir og reglugerðir ráðherra.

Ákvörðun um setningu siðareglna forseta kemur í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Vinnuhópur um siðferði komst að þeirri niðurstöðu að æskilegt væri að forsetaembættið setti sér slíkar reglur.
Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Garðabæ fyrir tíu dögum sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að í ljósi skýrslunnar þyrfti að endurskoða stöðu forsetans og setja embætti hans siðareglur. Hefur hún nú sett undirbúning þess af stað.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er siðareglunum ætlað að ramma inn starfshætti forsetaembættisins. Um leið er horft til þess að fjallað verði með víðtækari hætti um eðli og hlutverk forsetaembættisins á stjórnlagaþingi en frumvarp um það liggur fyrir Alþingi.

Í ráði er að siðareglurnar verði unnar í samvinnu stjórnarráðsins og forsetaembættisins. Ljóst er að forsetinn hefur aðkomu að gildistöku siðareglnanna enda þarf hann að staðfesta breytingar á lögum um laun sín, verði sú leið farin, eða gefa út forsetabréfið, verði sá háttur ofan á.

Í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndarinnar lýsti Ólafur Ragnar Grímsson þeirri skoðun sinni að óþarft væri að setja embættinu sérstakar siðareglur.
(visir.,is)

Ég tel rétt að setja forsetaembættinu siðareglur.T.d. þarf það að vera á hreinu hvort forsetinn geti rætt á erlendum vettvangi um viðkvæm utanríkismál.Eðlilegast væri að vikið væri að því í siðareglum hvort forsetinn þyrfti að hafa samráð við ríkisstjórn,t.d. utanríkisráðuneyti um viðkvæm málefni,sem forseti vildi ræða erlendis.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband