Miðvikudagur, 19. maí 2010
Lokaútkall frá Degi B.Eggertssyni
Borgarstjórnarkosningar verða annan laugardag svo og sveitarstjórnarkosningar um land allt.Í tilefni af því sendir Dagur B.Eggertsson eftirfarandi pistil:
Nú allt á fullu í kosningabaráttunni í borginni. Lokaspretturinn er framundan eftir langa atrennu þar sem mörgr hafa lagt hönd á plóg. Fyrir það vil ég þakka. Við höfum aldrei áður hitt jafnmarga flokksfélaga og borgarbúa á opnum fundum, framtíðarþingum og heimafundum einsog í vetur. Enda kalla breyttir tímar á nýjar aðferðir í stjórnmálum.
Afrakstur þessarar miklu vinnu er metnaðarfull aðgerðaráætlun og stefnuskrá á grundvelli jafnaðarstefnunnar sem mikilvægt er að komist til framkvæmda næstu fjögur árin. Reykjavíkurborg verður að beita öllu sínu afli til að koma okkur sem fyrst út úr kreppunni. Þar kynnum við lausnir sem eru bæði raunhæfar og ígrundaðar.
Undanfarna daga höfum við frambjóðendur, sjálfboðaliðar og önnur jafnaðarmannhjörtu heimsótt fólk í hverfum borgarinar, gengið í hús og gefið rósir. Þetta er að mínu mati það skemmtilegasta við kosningabaráttuna. Okkur er hvarvetna vel tekið. Ekkert jafnast á við að hitta fjöldann allan af fólki og finna hve rík borgin okkar er af fjölbreyttu og fallegu mannlífi.
Á þessum síðustu en mikilvægustu dögum baráttunnar munu rósagöngurnar halda áfram þannig að hægt sé að koma stefnunni á framfæri við sem flesta, augliti til auglitis. Líklega hefur það aldrei verið mikilvægara en nú að eiga orðastað við fólk, enda efnisrík umfjöllun um mismunandi málefnaáherslur flokkanna ekki fyrirferðamiklar í fjölmiðlum, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Um helgina verður því einnig skipulagðar sjálfsboðaliðahringingar, undir forystu frambjóðenda sjálfra. Þær fara fram á vinnustöðinni okkar við Lækjartorg, annarri hæð.
Spennandi opnir málefnafundir þar sem stefnan er kynnt verða jafnframt um alla borg næstu sólarhringana. Það væri mikill styrkur af því að sjá þig í baráttunni, á fundum, í rósagöngum eða hringingum eða bara með því að tala okkar máli á vinnustaðnum eða í fjölskyldunni. Því bið ég þig kæri félagi að leggja okkur lið á þessum síðustu dögum baráttunnar með þeim hætti sem þér er fært. !
Með baráttukveðju,
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík
Dagur hefur lagt sérstaka áherslu á aðgerðir í atvinnumálum.Hann vill,að Reykjavíkurborg taki forustu í atvinnuuppbyggingunni.Og hann leggst algerlega gegn ráðagerðum Árna Páls félagsmálaráðherra um að fækka starfsfólki í umönnunarstörfum.
Ég tek undir með Degi í því efni og tel ekki koma til greina að skera niður í velferðarmálum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.