Varaformaður danska jafnaðarmannaflokksins í heimsókn

Nicolai Wammen, borgarstjóri í Árósum og varaformaður danska jafnaðarmannaflokksins var sérstakur gestur á fundi um hlutverk borga og bæja við að koma okkur út úr kreppunni, sem haldinn var í Norræna Húsinu, föstudaginn 21. maí.

Heimsókn Nicolai Wammen er fyrsta skrefið í aukinni samvinnu og samráði norrænna leiðtoga jafnaðarmanna í sveitarfélögum á Norðurlöndunum og er m.a. tilkomin vegna aðildar  Samfylkingarinnar að SAMAK; samtökum norrænna jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndunum.
Nicolai Wammen, er sannkallað undrabarn í dönskum stjórnmálum. Hann hefur verið borgarstjóri í Árósum frá árinu 2006 og setið í borgarstjórn frá 1997. Helstu áherslumál hans eru skólamál bæjarins, málefni innflytjenda og að eldri borgarar sveitarfélagsins eigi gott og verðugt ævikvöld.
Árósar eru næst stærsti bær Danmerkur og í sveitarfélaginu búa jafnmargir og á Íslandi eða ríflega 300 þúsund manns. Þess má geta að undir stjórn jafnaðarmanna hefur Árósar náð því að hafa lægsta tölu atvinnulausra í gervalli Danmörku, eða rétt um 3% af vinnuaflinu. Nicolai er varaformaður danska jafnaðarmannaflokksins og átti sæti á danska þinginu 2001-2004. Hann er 39 ára gamall, stjórnmálafræðingur að mennt. 
Á fundinum í Norræna húsinu höfðu einnig framsögu Stefán Ólafsson, prófessor, sem fjallaði um hlutverk borga í þekkingarhagkerfi framtíðarinnar, Margrét S. Sigurðardóttir, sem talaði um skapandi greinar, listir, von og viðskipti. Og Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík og varaformaður fjallaði um nauðsyn þess að Reykjavík taki forystuna í endurreisn samfélagsins.
Mikill samhljómur var í orðum Nicolai Wammen um framtíðarhugsjónir og úrlausnir sem Árósar hafa ráðist í og svo því sem stefna Samfylkingarinnar gegn atvinnuleysi og úrlausnum í atvinnumálum hljóðar uppá. 
Björgvin Guðmundsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband