Þriðjudagur, 25. maí 2010
Bjartsýni landsmanna eykst
Væntingar neytenda halda áfram að glæðast ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var nú í morgun. Vísitalan hækkar um tæplega þrjú stig frá fyrri mánuði og stendur nú í 57,4 stigum, sem er hæsta gildi hennar frá því fyrir hrun.
Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir. Þetta er einungis í annað skiptið sem vísitalan kemst yfir 50 stig frá bankahruninu og er því augljóslega bjartara yfir landanum nú en undanfarin misseri.
Bjartsýni landsmanna nú er þó líkt og undanfarna mánuði fyrst og fremst bundin framtíðinni. Mat á núverandi ástandi í efnahags- og atvinnumálum versnar hins vegar frá síðustu mælingu og mælist því áfram afar lágt, eða 8,0 stig.
Tæplega 78% svarenda telja að efnahagsástandið sé slæmt um þessar mundir og rúm 57% þeirra telja að atvinnumöguleikar séu litlir. Væntingar til framtíðarinnar glæðast hinsvegar en mat landsmanna á aðstæðum í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði hækkar úr 83,7 stigum í 90,3 stig. Þó að lund landans sé nú að léttast þegar horft er til framtíðar bólar enn ekkert á því að mat á núverandi aðstæðum færist til betri vegar.
Líklega þarf að létta meira til í efnahagsmálunum áður en það gerist en verðbólgan hér er enn sú mesta á EES-svæðinu, atvinnuleysi er i sögulegu hámarki og Icesave deilan bíður lausnar. Mögulegt er að allt þetta hafi verið landanum ofarlega í huga þegar mæling Capacent Gallup fór fram fyrr í þessum mánuði, og í ofanálag var Eyjafjallajökull þá enn að spúa ösku sinni og varpaði stórum skugga á ferðamannatímabilið sem nú er að hefjast. Núna horfir það til betri vegar en athyglisvert verður að sjá hvernig væntingar landsmanna þróast næstu mánuði.(visir.is)
Mér virðiust svartsýni landsmanna á núverandi efnahagsástandi mikil en væntingar til framtíðar eru hins vegar að aukast.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.