Fimmtudagur, 27. maí 2010
Jóhanna ávarpar flokksmenn
Jóhanna Sigurðardóttiur,forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hefur sent flokksmönnum eftirfarandi ávarp:
Nú, þegar aðeins tveir sólarhringar eru til kosningar, bendir allt til þess að úrslit þeirra verði söguleg. Hið hefðbundna flokkakerfi sem Ísland hefur búið við megnið af lýðveldistímanum þar sem gömlu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið í lykilstöðu í krafti yfirburðafylgis er á hröðu undanhaldi. Samfylkingunni var ekki síst stefnt gegn þessum yfirburðum gömlu flokkanna á íslandi og í síðustu alþingiskosningum varð sá sögulegi áfangi að jafnaðarmenn urðu í fyrsta sinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins.
Samfylkingin hefur aldrei fyrr boðið fram undir eigin nafni í eins mörgum sveitarfélögum og nú, auk þess eru félagar okkar víða um land í farsælu samstarfi við annað félagshyggjufólk. Víða um land benda skoðanakannanir til að þessi framboð okkar muni velta sitjandi meirihlutum, halda sjó eða sækja í sig veðrið. Á sama tíma blasir við Sjálfstæðisflokknum eitthvert mesta fylgishrun sögunnar og sjaldan eða aldrei hefur óeining flokksins ógnað framboðum hans eins og nú. Þar sem ný og óhefðbundin framboð hafa laðað til sín fylgi, eins og í Reykjavík og á Akureyri, virðast okkar fólk síður tapa fylgi en framboð Sjálfstæðisflokksins. Sóknarfærin eru því til staðar og sú staðreynd blasir við að í kosningunum á laugardaginn gæti Samfylkingin komist í lykilstöðu víða í sveitarstjórnum landsins.
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að við nýtum nú þann stutta tíma sem til stefnu er til að tryggja forystuhlutverk okkar jafnaðarmanna í sveitarstjórnum landsins. Nú skiptir öllu máli að velferðarkerfið verði varið og að við uppbyggingu samfélagsins verði gildi jafnaðarmanna um frelsi, jafnrétti og bræðralag lögð til grundvallar.
Samfylkingarfólk um allt land hefur lagt mikið á sig undanfarnar vikur við undirbúning kosningabaráttunnar og nú síðustu daga hafa flokksfélagar gengið í hús, gefið rósir og kynnt stefnuna. Það ber að þakka öllu því góða fólki sem hefur gefið sér tíma í flokksstarfið nú sem fyrr, en lokaátakið er eftir. Ég heiti á þig og þína að leggja nú nótt við dag til að tryggja góða útkomu Samfylkingarinnar og þeirra sameiginlegu framboða sem Samfylkingin á aðild að. Þannig getum við tryggt að úrslitin á laugardaginn verði söguleg. Þannig og aðeins þannig mun það falla í hlut jafnaðarmanna að leiða endurreisnina í sveitarfélögum landsins og þannig byggja upp nýtt og betra samfélag á Íslandi.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.