Föstudagur, 11. júní 2010
Ætlar ríkisstjórnin að svíkja fyrningarleiðina?
Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: Ætlar ríkisstjórnin að svíkja fyrningarleiðina? Þar segir svo m.a.:
Eitt stærsta kosningaloforð stjórnarflokkanna í síðustu þingkosningum var að umbylta ætti kvótakerfinu og fara fyrningarleiðina í sjávarútvegsmálum.Fullyrða má,að þetta kosningaloforð hafi tryggt stjórnarflokkunum þingmeirihluta.Samkvæmt stjórnarsáttmálanum á að byrja fyrningu aflaheimilda 1.september á þessu ári og fyrna kvótann á 20 árum.Því var heitið að haft yrði samráð við hagsmunasamtök um fyrninguna..
Ekki er laust við að margir hafi verið hissa á því hvað stjórnarflokkarnir voru ákveðnir þegar þeir gáfu framngreint fyrirheit.Einkum þótti Jóhanna Sigurðardóttir,forsætisráðherra ákveðin þegar hún lýsti því yfir að farin yrði fyrningarleiðin og kvótar fyrndir. Það var ekkert hik á henni í því efni.En nú bregður svo við, að lausafréttir berast um það, að ekki verði byrjað að fara fyrningarleiðina 1.september n.k. eins og áður hafði verið boðað.En í stað þess, að ríkisstjórnin komi hreint fram og tilkynni hvort fresta þurfi framkvæmdinni eru þingmenn úr stjórnarliðinu látnir flytja óljósar fregnir um, að ekki verði hafin framkvæmd fyrningar næsta haust.Þannig sagði Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður Samfylkingarinnar að ekki yrði hafin fyrning aflaheimilda næsta haust.Það væri orðið of seint að leggja fram frumvarp þar um.Hún talaði um þetta eins og sjálfsagt væri að fresta framkvæmdinni.Hún sagði,að lögð yrði fram áætlun um málið næsta haust. Áætlun er eitt.Framkvæmd er annað. Halda þingmenn og ráðherrar að kjósendur séu bjánar.Kjósendur sjá, að ríkisstjórnin er að heykjast á því að efna kosningaloforðið um fyrningu aflaheimilda.En ég segi: Ef ríkisstjórnin svíkur þetta mikilvægasta kosningaloforð sitt þá er hún búin að vera og verður að fara frá.Við líðum ekki slík svik.
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur dregið lappirnar í þessu máli allt frá því ríkisstjórnin var mynduð.Hann styður ekki heilshugar kosningaloforðið og ákvæði stjórnarsáttmálans um fyrningu aflaheimilda á 20 árum.Hann skipaði nefnd til þess að undirbúa málið og fól nefndinni m.a. að reyna að ná sátt við LÍÚ og hagsmunasamtök um málið.Þetta voru fyrstu alvarlegu mistökin í málinu.Eftir að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ákváðu að fyrna aflaheimildir á 20 árum þýðir ekki að ætla að semja við hagsmunaaðila um málið. Þeir eru andvígir fyrningarleiðinni og því verður engin sátt við LÍÚ um þá leið.Það eina sem unnt er að ræða við samtök útvegsmanna um er framkvæmd fyrningarinnar, þ.e. hvort fyrna eigi um 5% á ári eða örar fyrst og minna síðar eða minna fyrst og örar síðar.Einnig hefði mátt ræða við útvegsmenn um endurúthlutun aflaheimilda þ.e. hvort bjóða ætti þær upp eða úthluta beint eftir ákveðnum reglum. En frá byrjun hefði þurft að liggja fyrir að uppfylla yrði skilyrði Mannréttindanefndar Sþ. svo látið yrði af mannréttindabrotum en það hefði m.a. þýdd að hleypa yrði nýjum aðilum inn í greinina og úthluta eða bjóða upp á réttlátan hátt.En svo virðist sem nefnd Jóns hafi verið að ræða við útvegsmenn um það hvort fara ætti fyrningarleiðina.Það atriði var ekki á dagskrá. Það var ákveðið í kosningunum og við myndun ríkisstjórnarinnar að fara ætti fyrningarleið.Hugmyndir nefndarinnar um að vatna fyrningarleiðina út og fáránlegar hugmyndir um að leigja aflaheimildir út til langs tíma ,10-15 ára eru eins og skemmdarstarfsemi.Í dag eru aflaheimildir leigðar út til eins árs í senn en ef leigja ætti þær út til lengri tíma væri verr af stað farið en heima setið.Slíkt væru alger svik við kjósendur.
Ég tel að slá eigi "sáttanefndina" strax af og að ríkisstjórnin eigi sjálf að leysa málið.Hún gæti skipað 3ja manna ráðherranefnd,undir forsæti Jóhönnu.Slík nefnd gæti ákveðið á stuttum tíma hvernig haga ætti framkvæmd fyrningarleiðarinnar. Málið snýst fyrst og fremst um hvernig endurúthluta á aflaheimildum þ.e. hvort bjóða eigi þær upp eða úthluta þeim beint. Einnig þarf að ákveða hvað mikill kvóti verður tekinn til hliðar fyrir nýja aðila."Sáttanefndin" hefur klúðrað málum og ekki ráðið við að leysa það. Nefndin verður að hætta. Ráðherranefnd getur leyst málið á 1 mánuði.
Formaður og varaformaður" sáttanefndarinnar" hafa skrifað greinar í blöð um málið,sem leiða í ljós,að nefndin er á villigötum. Í greinum þessum hefur málinu verið drepið á dreif,talað í kringum fyrningarleiðina,eins og hún væri aukaatriði og annað skipti meira máli.Nú síðast var minnst á þá hugmynd að leigja út aflaheimildir til langs tíma eins og það kæmi til greina.Þessi hugmynd er stórhættuleg og mundi festa kvótana í sessi hjá stórútgerðunum. Ætlun ríkisstjórnarinnar var að innkalla veiðiheimildir en ekki að tryggja yfirráð útgerðanna yfir þeim í langan tíma.Þjóðin á kvótana og tímabært að hún hafi yfirráð yfir þeim.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mæltu manna heilastur.
Gísli Ingvarsson, 11.6.2010 kl. 11:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.