Læknir sakar Actavis um að taka lyf kerfisbundið úr sölu

Læknir sakar lyfjarisann Actavis um að taka lyf kerfisbundið úr sölu og setja þau svo síðar inn á markað undir öðru heiti á margföldu verði. „Af og frá," segir talsmaður Actavis. Lyfjastofnun getur ekkert aðhafst.

„Það er af og frá að Actavis hætti að framleiða lyf á Íslandi í þeim tilgangi að flytja þau inn og selja þau dýrar," segir Hjördís Árnadóttir upplýsingafulltrúi Actavis.

Læknirinn Sveinn Rúnar Hauksson gagnrýndi Actavis harðlega í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær. Þar sagði hann mörg dæmi um að fyrirtækið léti hagsmuni sjúklinga lönd og leið í gróðaskyni. Lyf sem ekki skiluðu fyrirtækinu hagnaði væru tekin af markaði og væru ófáanleg í lengri tíma sjúklingum til mikilla óþæginda, allt þar til Actavis færi að flytja samheitalyf til landsins og selja þau þá miklu dýrar en gömlu lyfin. Þetta væri mögulegt vegna einokunarstöðu fyrirtækisins.

Sveinn nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings, meðal annars kínín-töflur sem notaðar eru við sinadrætti, og sýklalyfið Staklox.
Hjördís vísar þessum ásökunum Sveins á bug. Í fyrsta lagi fari fjarri að Actavis sé með einokunarstöðu á markaðnum, heldur hafi fyrirtækið um 13 prósenta markaðshlutdeild þegar litið sé til verðmæta og um 35 prósenta hlutdeild sé horft á magn lyfja sem seld eru.

Sú fullyrðing Sveins að Actavis sé unnvörpum að taka lítt gróðavænleg lyf úr sölu til að hagnast meira á erlendum samheitalyfjum sé líka röng. Actavis sé einfaldlega um þessar mundir að leggja af hluta af framleiðslu sinni, þar sem framleidd séu gömul vörumerki með úreltum og óhagkvæmum framleiðsluaðferðum. Í staðinn sé reynt að finna sambærileg lyf erlendis á sem hagstæðustu kjörum.
Þá bendir Hjördís á að verðhækkanir upp á síðkastið megi í mörgum tilfellum rekja til breytinga sem urðu á reglum um smásöluálagningu í upphafi árs 2009.

Sveinn furðar sig jafnframt í grein sinni á að engir opinberir aðilar skuli bregðast við þessari þróun, og nefnir Lyfjastofnun í því samhengi.
Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir stofnunina ekki hafa nokkuð með lyfjaverð að gera, en verðið sé hins vegar háð samþykki lyfjagreiðslunefndar. Þá geti Lyfjastofnun ekki heldur komið í veg fyrir það að fyrirtæki taki lyf af markaði. „Fyrirtækin ráða þessu og ef þau eru að hagræða í sínum rekstri þá er ósköp lítið sem lyfjayfirvöld geta gert," segir hún.

Rannveig tekur hins vegar fram að það sé rangt að ekkert sé gert í því þegar tiltekin lyf vanti á markaðinn. „Við höfum alltaf áhyggjur af því þegar lyf hverfa af markaði, og reynum þá, í samvinnu við fyrirtækin, að leita að einhverjum framleiðanda sem gæti hugsað sér að setja lyfið á markað hér," segir Rannveig. Það takist oft en ekki alltaf.(visir.is)

Björgvin Guðmundsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Björgvin, það byrjaði að syrta í álinn, nær lagagrautur Viðeyjarstjórnarinnar um lyfsölu á Íslandi (1991-96) tók gildi  1998. Sighvatur Björgvinsson tók sér allan heiður af uppfóstri þessa vanskapnings, sem komið hafði undir hjá Jóni og Davíð út í Viðey.

Meðreiðarsveinar Sighvats úr stétt lyfjafræðinga má finna í stólum stofnanna heilbrigðisgeirans, þ.m.t. ráðuneytinu sjálfu, en ábyrgð þessa fólks er mismikil.

Varðandi lyfjaverð í smásölu á Islandi eru nokkur atriði, sem skipta máli:

Smæð markaðar ; við erum taldir ríkir og kostnaður við regluhald er mikill.

Ekki meira í bili. Kv., KPG

Kristján P. Gudmundsson, 28.7.2010 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband