Laugardagur, 31. júlí 2010
Viðskiptaráð óánægt með meðferð ríkisstjórnar á Magmamáli
Viðskiptaráð er mjög óánægt með framgöngu ríkisstjórnarinnar í máli kanadíska fyrirtækisins Magma Energy. Í greinargerð frá Viðskiptaráði um málið segir að hringlandaháttur, stefnuleysi og ákvarðanafælni stjórnvalda í stórum og mikilvægum málum geri mörgum aðilum í atvinnulífinu erfitt um vik.
Greinargerð Viðskiptaráðs var birt í gær og fjallar um erlenda fjárfestingu. Þar segir að fjárfesting sé ein af grunnstoðum hagvaxtar og forsenda þess að endurreisn hagkerfisins geti orðið að veruleika fyrr en síðar. Pólitísk afskipti séu því ekki til þess fallin að stuðla að sameiginlegu markmiði okkar allra, að efla hagvöxt og með því lífskjör á komandi árum.
Viðskiptaráð bendir á þá staðreynd að Ísland er í öðru sæti á lista yfir þau aðildarríki OECD sem hafa mestar takmarkanir á beinni fjárfestingu erlendra aðila. Af því megi ráða að Ísland sé almennt eftirbátur annarra ríkja þegar kemur að umgjörð fjárfestingar í alþjóðlegu samhengi.
Enn fremur kemur fram í greinargerðinni að Viðskiptaráð telji atburði undanfarinna vikna ekki til þess fallna að efla tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi. Eðlilegt sé að spyrja sig hvort fjárfestar muni yfirhöfuð hætta á að fjárfesta hérlendis á komandi árum af ótta við pólitísk afskipti af einstökum verkefnum eða fjárfestingum.
(visir.is) Það kemur ekki á óvart,að viðskiptaráð sé óánægt með stefnu ríkisstjórnarinnar í Magmamálinu. Viðskiptaráð vill sem mest frelsi í fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi og telur alltof miklar hömlur á fjárfestingu erlendra aðila hér.Ráðið bendir á,að Ísland sé í öðri sæti hjá OECD yfir þau ríki ,sem hafi mestar hömlur á fjárfestingu erlendra aðila.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.