Þriðjudagur, 3. ágúst 2010
Skuldamál Runólfs könnuð
Sú ákvörðun félagsmálaráðherra að skipa Runólf í stöðu umboðsmanns skuldara hefur vakið upp spurningar um hæfi Runólfs til að gegna stöðunni, meðal annars vegna frétta DV sem greindi frá því á dögunum að Sparisjóður Keflavíkur þyrfti að afskrifa 500 milljóna króna hlutabréfaskuld eignarhaldsfélags Runólfs en skuldin nam 530 milljónum í árslok 2008.
Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, segist ætla skoða hvernig staðið var að niðurfellingu skulda Runólfs. Hann segir ekki nóg að fram hafi komið upplýsingar um skuldastöðu hans. Hann segist hafa rætt það við Runólf og sent honum bréf þar sem hann óskar eftir frekari upplýsingum.
Árni segir að honum hafi verið kunnugt um viðskipti Runólfs áður en hann skipaði í stöðu umboðsmanns skuldara. Hann hafi þó ekki vitað um skuldaskil hans. Árni segir að það sé almennt þannig að skuldastaða hafi ekki áhrif á hvort fólk njóti embættisgengis.
Einnig hefur verið á það bent að Runólfur sé samflokksmaður Árna Páls og þeir jafnvel verið sagðir vinir. Aðspurður hvort það væri rétt sagði Árni að þeir væru kunningjar. Hann hafi sérstaklega athugað um hæfi sitt vegna þess og komist að því að hann væri ekki vanhæfur til að skipa hann í embættið.
Ásta Sigrún Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, sem einnig sótti um stöðu umboðsmanns skuldara hefur krafið ráðherra um skriflegan rökstuðning sinn fyrir skipun Runólfs
Árni Páll segir að ráðuneytið muni birta hæfismatið sem ráðning Runólfs er byggð á. Rökin hafi verið skýr og þau verði kynnt.(ruv.is)
Það er rétt hjá félagsmálaráðherra,að menn verða ekki vanhæfir við val í embætti við það eitt að skulda peninga eða að tapa peningum í viðskiptum.Svo virðist sem eignarhaldsfélag Runólfs Ágústssonar,sem stofnað var til kaupa á hlutabréfum,hafi orðið gjaldþrota og Sparisjóður Keflavíkur því tapað þeim fjármunum sem eignarhaldsfélagið skuldaði honum.Mörg dæmi eru um að slíkt hafi gerst við bankahrunið.Því miður virðist Runólfur hafa tekið þátt í braskdansinum fyrir hrun og ætlað að græða mikla peninga. Hvort sú þátttaka gerir hann vanhæfan skal ósagt látið.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.