Mánudagur, 9. ágúst 2010
Nýr umboðsmaður skuldara tekur til starfa í dag
Ásta Sigrún Helgadóttir tekur við starfi umboðsmanns skuldara í dag. Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, hefur sinnt starfi undanfarna daga eða frá því að Runólfur Ágústsson lét af embætti í síðustu viku eftir að fjölmiðlar fjölluðu um fjármál hans og skuldugt einkahlutafélag sem áður var hans í eigu.
Eftir afsögn Runólfs var Ástu Sigrúnu boðið starfið. Hún hafði áður stýrt Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Ásta Sigrún hafði lýst mikilli óánægju með skipan Runólfs og hótað að fara í hart.
Í Fréttablaðinu um helgina sagði Ásta Sigrún atburðarásina í kringum ráðningu Runólfs ekki rýra traust almennings til embættisins. Nei, nú er bara mikilvægast að það skapist vinnufriður svo það sé hægt að byggja þetta embætti upp til framtíðar. Þetta bara gerðist og það hafði kannski enginn hugmyndaflug til að sjá það fyrir, en nú er mikilvægt að horfa fram á veginn," sagði Ásta Sigrún í viðtalinu sem hægt er að lesa hér.
Umboðsmanni skuldara er ætlað það hlutverk að gæta að hagsmunum og réttindindum skuldara. Embættið á að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar(visir.is)
Hið nýja embætti á að hafa meira væri en ráðgjafarstofa heimilanna hafði. Vonandi stendur Ásta Sigrún sig vel í hinu nýja starfi.Það ríður á að veita þessu nýja embætti trausta og góða forustu. Ég treysti Ástu Sigrúnu til þess að gera það.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.