Fimmtudagur, 12. ágúst 2010
Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa lækkað í ár
Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa lækkað það sem af er ári mælt í krónum enda hefur krónan styrkst talsvert eða um nær 11% frá áramótum. Þannig voru erlendu skuldirnar komnar í 3.027 milljarða kr. í lok fyrsta ársfjórðungs samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum og eru eflaust enn lægri nú.
Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að því megi reikna með að erlend skuldastaða þjóðarbúsins fari nokkuð undir 200% af landsframleiðslu í ár. Verður landið þar með komið í hóp hinna Norðurlandanna en erlendar skuldir Dana námu í lok síðastliðins árs 196% af landsframleiðslu, skuldir Svía á þennan mælikvarða eru 165% og Finna 153%.
Erlendar skuldir þjóðarbúsins án innlánsstofnanna í slitameðferð námu 3.131 milljörðum kr. í lok síðastliðins árs eða um 209% af landsframleiðslu síðastliðins árs. Um er að ræða skuldir í erlendri mynt innlendra aðila, bæði einkaaðila og opinbera aðila, við erlendra aðila.
Hrun bankanna breytti þessu mikið en í lok árs 2007, svo dæmi sé tekið, námu erlendar skuldir þjóðarbúsins 8.181 milljarðar kr. eða 629% af landsframleiðslu þess árs samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum.
Í alþjóðlegum samanburði eru erlendar skuldir Lúxemborgar og Írlands hvað hæstar. Í Lúxemborg eru þær 3.854% af landsframleiðslu og á Írlandi eru þær 1004% af landsframleiðslu. Helgast há skuldahlutföll þessara landa af eðli þeirrar starfsemi sem þar er. Á eftir þeim koma Líbería með 606%, Holland með 470% og Bretland með 416%. Erlend skuldastaða Íslands er rétt í meðaltali þess sem sjá má meðal þróaðra ríkja. (visir.is)
Þetta eru góðar fréttir.Skuldir ríkisins eru mikið minni þar eð hér eru meðtaldar skuldir einkaaðilia.Hér er einnig um brúttoskuldir að ræða en á móti koma miklar eignir.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.