Samningaviðræður um Icesave að hefjast á ný

Formlegur samningafundur hefur verið boðaður um næstu mánaðamót í Icesave-deilunni á milli Íslendinga, Breta og Hollendinga. Þetta fullyrða íslenskir heimildamenn við frönsku fréttaveituna AFP. Engar viðræður hafa verið á milli fulltrúa þjóðanna þriggja frá því snemma í júlí. Þær viðræður voru haldnar hér á landi. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa þó verið óformlegar þreifingar á milli fulltrúa í samninganefndum Íslendinga, Breta og Hollendinga síðustu vikur og daga. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að halda formlegan fund öðru hvoru megin við næstu mánaðamót, að því er franska AFP fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum innan íslenska stjórnarráðsins.

Tvisvar sinnum hefur náðst samkomulag milli þjóðanna. Hinu fyrra breytti Alþingi verulega með fyrirvörum sem hvorki Bretar né Hollendingar gátu fellt sig við, -og hinu síðara var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu hér í byrjun mars.

Síðan þá hefur málið verið í hálfgerðu uppnámi. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gefið það út að Íslendingum beri að greiða Icesave skuldina. Evrópusambandindð sjálft telur hins vegar að sam-evrópska innstæðutryggingakerfið feli ekki í sér sjálfkrafa ríkisábyrgð á bankainnstæðum. Hins vegar hafi regluverkið ekki verið innleitt hér með réttum hætti og því beri Íslendingum að borga.

Enn er óljóst hversu mikið fæst upp í Icesave skuldina úr þrotabúi fallna Landsbankans, en upphæðin gæti orðið mörg hundruð milljarðar króna ef allt fer á versta veg. þar skipta vextirnir miklu máli, en síðast var samið um að þeir yrðu 5,5%. Íslenska samninganefndin lagði hins vegar til í vor að menn myndu bíða og sjá hvað kæmi út úr þrotabúinu og gera upp málið þegar það lægi fyrir, líklegast eftir einhver ár.

Það mun ekki hafa hlotið hljómgrun hjá Bretum og Hollenindingum, enda hefur fólki í þessum löndum löngu verið greitt það sem það átti inni á Icesave-reikningum sínum. Það voru innstæðutryggingasjóðir landanna tveggja sem borguðu, -og nú rukka þeir íslenska sjóðinn um endurgreiðslu.(ruv.is)

Það er tími til kominn að hefja samningaviðræður um Icesave á ný.Þessi mikli dráttur á lausn málsins getur orðið okkur dýrkeyptur.Alls er óvíst hvernig semst um deiluna. Best væri ef unnt væri að semja  við Breta og Hollendinga um að þeir fengju þrotabú gamla Landsbankans og ekkert meira. Þeir gætu þá reynt að gera sér sem mestan mat úr þrotabúinu. Það er nú þegar komið upp fyrir 90% af Icesave skuldinni. Þrotabúið  getur orðið mun verðmætara og farið langleiðina í alla skuldina.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband