Rannsóknarnefnd alþingis: Landsbankinn braut lög með lánum til Björgólfs Thor

Björgólfsfeðgar beittu Landsbankanum til þess að fjármagna rekstur eigin fyrirtækja og Björgólfur Thor fékk 24 milljarða króna lán rétt fyrir bankahrunið. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að bankinn hafi brotið lög með lánum til Björgólfs Thors og tengdra aðila.

Björgólfsfeðgar og félög tengd þeim voru með stærstu lántakendum íslensku bankanna fyrir hrunið. Heildarútlán móðurfélaga stóru bankanna þriggja til Björgólfs Guðmundssonar og tengdra aðila fór hæst yfir 1,3 milljarða evra eða 220 milljarða króna. Útlán til hóps Björgólfs Thors fóru hæst í rúmlega 1,4 milljarða evra eða um 240 milljarða króna.

Þá kemur fram í skýrslunni að Landsbankinn í Lúxemborg hafi að umtalsverðu leyti verið notaður til þess að fjármagna starfsemi fyrirtækja Björgólfs Thors, en hann var stærsti lántakandinn og námu lán til hans og tengdra félaga alls 300 milljónum evra eða rúmlega fimmtíu milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Fjármögnun í þágu Björgólfs Thors kristallast dálítið vel í lánveitingu rétt fyrir hrunið en hinn 30. september 2008, aðeins viku fyrir hrun og daginn eftir þjóðnýtingu Glitnis, fékk Björgólfur Thor lán upp á 153 millljónir evra, eða um 24 milljarða króna, hjá Landsbankanum í Lúxemborg.

Síðustu 18 mánuðina fyrir fall Landsbankans sveifluðust heildarútlán móðurfélagsins til hóps Björgólfs Thors í kringum 20 prósent af eiginfjárgrunni Landsbankans, en þess má geta að Landsbankinn reiddi sig að stórum hluta á Icesave-reikningana til að fjármagna sig á þessum tíma.

Á einum tímapunkti námu áhættuskuldbindingar, þ.e útlán, gagnvart Björgólfi Thor 50 prósent af eigin fé Landsbankans. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að um meiriháttar brot hafi verið að ræða á 30. gr. laga um
fjármálafyrirtæki. Í skýrslunni segir jafnframt að brot bankans hafi verið sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að lántakinn var annar af aðaleigendum hans.

Öll stjórn eigenda á Landsbankanum var á gráu svæði svo sem lánveitingar til kaupa á Eimskip og lán til  fjármögnunar á kaupum Útgerðarfélags Akureyrar.Frá byrjun til falls Landsbankans sem einkabanka var fylgt braskstefnu.
Með hliðsjón af framansögðu er það hlægilegt,að Björgólfur Thor skuli nú telja sig saklausan og ekki bera neina ábyrgð heldur vísa á bankastjóra Landsbankans og bankaráð.Hann ber fulla ábyrgð.
Björgvin Guðmundsson
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband