Sunnudagur, 29. ágúst 2010
Átak um menntun einstaklinga í tækni-og raungreinum
Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Vinnumálastofnun, Samtök iðnaðarins, háskólar landsins og tækni- og hugverkafyrirtæki hafa efnt til sameiginlegs átaks um menntun einstaklinga í tækni- og raungreinum. Fólki á atvinnuleysisskrá á aldrinum 20-60 ára, stendur til boða að setjast á skólabekk nú í haust og mennta sig til starfa innan þessa sívaxandi atvinnugeira. Eftirspurn eftir fólki með menntun í tækni- og raungreinum fer verulega vaxandi og er gert ráð fyrir að það þurfi um 3000 nýja tæknimenntaða einstaklinga á vinnumarkaðinn á næstu þremur árum.
Frumkvæðið að verkefninu kom frá Jóni Ágústi Þorsteinssyni, forstjóra Marorku og hafa fjölmargir komið að þróun verkefnisins. Þessa dagana standa yfir kynningafundir fyrir atvinnuleitendur á tækifærum í þessum geira, m.a. hjá Marorku, CCP, Stika og fleirum.
Verðbólga mælist nú 4,5% og er á niðurleið, en hún var rúm 18% fyrir einu og hálfu ári. Þetta og þróun ýmissa hagstærða má sjá á island.is. Þar kemur einnig fram að atvinnuleysi er nú um 7,5%, hefur lækkað undanfarið og er mun lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir, störfum er því aftur farið að fjölga. Stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 7% á rúmu ári og hafa ekki verið lægri í 6 ár. Sú áætlun sem ríkisstjórnin hefur unnið eftir, hefur að mestu gengið eftir og ofantaldir hagvísar benda til að viðsnúningur hafi orðið í íslensku efnahagslífi.
Landsvirkjun opnaði nýlegar tilboð í 1. hluta framkvæmda við Búðarhálsvirkjun. Búðarhálsvirkjun er stórframkvæmd og er áætluð fjárfesting í heild upp á yfir 22 milljarða króna. Virkjunin á að hefja framleiðslu fyrir árslok 2013 og framleiðslugetan verður 80 MW. Framkvæmdin skapar beint 600 til 700 ársverk á Íslandi.
Fyrir stjórnvöld sem vinna að endurreisn efnahagslífsins er mikilvægt að eini stórframleiðandi raforku á landinu sem er að fullu í eigu ríkisins skuli nú ráðast í brýnar orkuöflunarframkvæmdir. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi að fullu staðið við fyrirheit um að ryðja úr vegi öllum hindrunum í vegi uppbyggingar álvers í Helguvík og orkuöflunar vegna þess sem eru í þeirra valdi ríkir talsverð óvissa um framkvæmdina eins og fram hefur komið í fréttum. Framkvæmdaaðilar og orkufyrirtækin hafa ekki náð saman um raforkusamning og hefur deilu Norðuráls og HS Orku um gildi fyrri samnings verið skotið til gerðardóms í Svíþjóð af hálfu Norðuráls. Forsenda þess að af framkvæmdinni geti orðið er að orkufyrirtækin og framkvæmdaaðili nái saman um raforkusamning sem tryggir bæði seljanda og kaupanda ásættanlega arðsemi af fjárfestingunni og eigendum auðlindarinnar á Reykjanesi afgjald fyrir auðlindanýtinguna. (heimasíða Samfylkingar)
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.