Á að afhenda útgerðinni kvótana til 15-20 ára?

Starfshópur um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins, að fulltrúum Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) undanskildum, telur aðkallandi að skýrt ákvæði verði sett inn í stjórnarskrá um að auðlindir sjávar séu eign þjóðarinnar. Mælt er með því að sjávarútvegsráðherra komi erindi þessa efnis til nýskipaðrar nefndar sem nú undirbýr stjórnlagaþing. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kemur þetta fram í drögum að niðurstöðum starfshópsins en hún skilar ráðherra skýrslu í lok vikunnar.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á föstudag er litið til svokallaðrar samningaleiðar við úthlutun aflaheimilda í drögunum. Þýðing þessa er að gerðir verða samningar við útgerðir landsins um nýtingu þeirra aflaheimilda sem eru nú þegar í þeirra höndum. Með þessu telur starfshópurinn að formlega hafi verið tryggt að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu og eignarétturinn sé því skýr. Er því um innköllun og endurúthlutun að ræða, ekki fyrningu aflaheimilda.

Rætt er um að slíkir samningar yrðu gerðir til fimmtán til tuttugu ára. Útgerðarmenn telja eðlilegt að þeir séu gerðir til mun lengri tíma, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Höfundar samningaleiðarinnar, lögmennirnir Lúðvík Bergvinsson og Karl Axelsson, mæla með því í skýrslu sinni að aflaheimildum verði skipt upp í potta. Annars vegar aflaheimildirnar, sem fara í stærri pottinn, og hins vegar pott fyrir byggðakvóta, strandveiðar og fleira af félagslegum toga. Með þessari leið er mælt í drögunum. Hvernig þessi skipting verður hlutfallslega á eftir að útfæra. Lúðvík og Karl varpa fram hugmynd um að útgerðin fái 80 til 95 prósent í skýrslu sinni.

Í drögunum er gert ráð fyrir að gerð verði úttekt á tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi með það fyrir augum að aflaheimildir safnist ekki á fárra manna hendur. Settar verði reglur um innbyrðis tengsl fyrirtækja. Framsal kvóta verður takmarkað og gerð krafa um að það verði gert á markaði. - (visir.is)

Ég tel ekki koma til greina að afhenda útgerðinni 80-95% veiðiheimilda til 15-20 ára.Ég tel það svik á kosningaloforði Samfylkingarinnar. Það var aldrei meiningin að  innkalla veiðiheimildir og úthluta þeim um leið til langs tíma í stað 1 árs í senn eins og nú er gert.Það er engu líkara en að nefndin,sem vann að málinu,hafi lofað  útgerðinni,að hún fengi veiðiheimildir til langs tíma ef hún tæki  þátt í störfum nefndarinnar.Þetta er verr af stað farið en heima setið.

Björgvin Guðmundsson





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband