Þriðjudagur, 31. ágúst 2010
Stokkað upp í ríkisstjórninni
Stokkað verður upp í ríkisstjórninni á næstu dögum, jafnvel strax á morgun eða þegar þing kemur saman á fimmtudag. Ráðherrum verður fækkað um tvo.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur rætt við flesta þingmenn Samfylkingarinnar í dag og stefnir að því að ræða við þá alla áður en dagurinn er liðinn.
Allsherjarnefnd afgreiddi í morgun frá sér frumvarp um breytingar á stjórnarráðinu og þar með eru allar líkur á að það verði að lögum á septemberþingi sem hefst á fimmtudag.
Samkvæmt því verða heilbrigðis- og félags- og tryggingamálaráðuneyti sameinuð í velferðarráðuneyti og dóms- og samgönguráðuneyti í innanríkisráðuneyti. Samkvæmt heimildum fréttastofu verða báðir utanþingsráðherrarnir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra og Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra látin fara. En Ögmundur Jónasson er sennilega á leið í ríkisstjórn fyrir Vinstri græna og Jón Bjarnason verður að öllum líkindum áfram ráðherra.
Til að stjórnarflokkarnir hafi áfram hvor um sig fimm ráðherra þurfa Vinstri grænir að fórna einum og er talað um að það verði Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.
Talið er að Kristján Möller samgönguráðherra sé á leið út úr ríkisstjórn.
Þá er líklegt að Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra verði áfram ráðherra og nýr ráðherra komi inn fyrir Samfylkinguna, og er Oddný Harðardóttir nefnd í því sambandi.
Ráðherrarnir eru núna tólf en verða tíu að lokinni uppstokkun en allsherjarnefnd ætlar að taka sér meiri tíma í að undirbúa stofnun atvinnuvegaráðuneytis, en eftir það er stefnt að því að fækka ráðherrunum um einn til viðbótar eða í níu.(visir.is)
Það var alltaf meiningin að stokka upp í ríkisstjórninni og fækka ráðuneytum og ráðherruim.Það er nú að koma til framkvæmda.
Björgvin Guðmundsson
,
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.