Mánudagur, 6. september 2010
Staða ríkisins betri en í fyrra
Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera á 2. ársfjórðungi 2010. Í þeim ársfjórðungi var tekjuhalli hins opinbera 30 milljarða króna samanborið við um 42 milljarða króna tekjuhalla á sama tíma 2009. Sem hlutfall af landsframleiðslu ársfjórðungsins mældist tekjuhallinn 8,0% og sem hlutfall af tekjum hins opinbera 18,6%. Á sama ársfjórðungi 2009 mældist tekjuhallinn 11,1% af landsframleiðslu og 28,3% af tekjum hins opinbera. Þessi bætta afkoma skýrist fyrst og fremst af auknum skatttekjum sem hækkað hafa verulega milli umræddra tímabila á sama tíma og dregið hefur verulega úr fjárfestingu hins opinbera eða um tæplega þriðjung.
Heildartekjur hins opinbera námu 162 milljörðum króna á 2. ársfjórðungi 2010 samanborið við 147 milljarða króna á sama tíma 2009 og hækkuðu um 10,2% milli ára. Tekjuhækkunin skýrist fyrst og fremst af 6,6 milljarða króna auknum tekjum af tryggingagjöldum milli ára og um 5,7 milljarða króna meiri tekjum af tekjusköttum. Á sama tíma jukust heildarútgjöld hins opinbera um 2,3% milli árs-fjórðunganna eða úr tæplega 189 milljörðum króna 2009 í ríflega 193 milljarða króna 2010. Útgjaldahækkunin skýrist að mestu af 8,6 milljarða króna auknum vaxtakostnaði hins opinbera og 3,7 milljarðar króna vexti í kaupum á vöru og þjónustu, en á móti vegur 4,4 milljarðar króna minni fjárfestingarkostnaður og 3,7 milljarða króna lækkun í félagslegum tilfærslum til heimilanna.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.