Miðvikudagur, 8. september 2010
Verður landsdómur kvaddur saman?
Formaður nefndarinnar, Atli Gíslason, hefur sagt að til standi að ræða þær í þinginu síðustu þrjá dagana fyrir þinglok. Þær þurfa því að koma á allra næstu dögum.
Nefndin hefur fundað stíft og sjást nefndarmenn varla í þingsal. Nefndin fékk undanþágu til þess að funda þrátt fyrir að þingfundir væru í gangi, en almennt mega þingnefndir það ekki. Svo virðist vera að verkefnið sé jafnvel mun stærra en menn gerðu ráð fyrir í byrjun. Önnum kafnir nefndarmenn hafa ekki svarað síma nú fyrir hádegi.
Ef skoðaðar eru fundargerðir, sem eru 47 frá áramótum, má sjá að mikið er rætt um ráðherraábyrgð og hafa sérfræðingar verið kallaðir til. Þar á meðal fyrrverandi ríkissaksóknari og vararíkissaksóknari og nú síðast Róbert Spanó lagaprófessor við Háskóla Íslands.
Margir hafa bent á að hugsanleg niðurstaða nefndarinnar verði sú að landsdómur verði kallaður saman. Landsdómur er sérdómstóll sem gert er ráð fyrir í stjórnarskránni og fer með og dæmir mál sem Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra. Dómurinn er skipaður fimmtán dómendum en hann hefur aldrei verið kallaður saman á Íslandi. Landsdómur var stofnaður árið 1905. Í landsdómi sitja fimm hæstaréttardómarar auk dómstjórans í Reykjavík, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands og átta menn kosnir af Alþingi til sex ára í senn auk varamanna.
Dómendur mega hvorki vera alþingismenn né starfsmenn stjórnarráðsins. Þeir mega heldur ekki vera skyldir hvor öðrum í fyrsta eða öðrum ættlið.
Rúm fimm ár eru síðan kosið var í landsdóm. Aðalmenn eru Linda Rós Michaelsdóttir kennari, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fyrrverandi Alþingismaður, Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Fannar Jónasson viðskiptafræðingur, Hlöðver Kjartansson lögmaður, Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður og Brynhildur Flóvenz lögfræðingur.
Varamenn eru Ástríður Grímsdóttir sýslumaður, Lára V. Júlíusdóttir lögmaður, Már Pétursson hæstaréttarlögmaður, Sveinbjörn Hafliðason lögfræðingur, Björn Jóhannesson héraðsdómslögmaður, Magnús Reynir Guðmundsson bæjarfulltrúi, Jónas Þór Guðmundsson lögmaður og Sigrún Benediktsdóttir lögmaður.( ruv.is)
Ekki er ólíklegt,að þingmannanefndin leggi til,að landsdómur verði kvaddur saman. Það yrði þá í fyrsta sinn sem það væri gert.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.