Laugardagur, 2. október 2010
Umskipti í ríkisfjármálum
Heildartekjur ársins 2011 eru áætlaðar 477,4 milljarðar króna og heildargjöldin tæpir 514 milljarðar. Tekjurnar aukast um 24 milljarða frá áætlun ársins 2010, ef tekjur vegna svonefndra Avens-viðskipta eru undanskildar.
Hagræða á í rekstri ríkisins um 44 milljarða króna á næsta ári. Sagði Steingrímur að fara ætti blandaða leið tekjuöflunar og samdráttar í útgjöldum. Samdráttur í útgjöldum ríkisins er áætlaður 33 milljarðar króna og auka á ýmsar skatttekjur ríkisins um 11 milljarða, þar af um 8 milljarða með skattahækkunum og 3 milljarða með nýrri heimild til úttektar séreignasparnaðar. Gert er ráð fyrir 9% skerðingu á almennri stjórnsýslu og 5% skerðingu á velferðarþjónustu, löggæslu og til framhaldsskóla. Framlög til sjúkratrygginga munu skerðast um 3%. Þetta snýr að heildarmyndinni en fyrir einstakar stofnanir er skerðingin enn meiri hlutfallslega, eins og hjá ýmsum heilbrigðisstofnunum þar sem sums staðar þarf að skera niður um allt að þriðjung miðað við boðuð framlög ríkissjóðs. Þá munu ýmsar bætur lækka, eins og barnabætur um nærri milljarð og vaxtabætur um nærri 300 milljónir króna.
Meðal helstu skattbreytinga má nefna að fjármagnstekjuskattur hækkar úr 18% í 20%. Það mun skila ríkissjóði 1,5 milljörðum kr. Milljarður mun fást með því að hækka erfðafjárskatt úr 5% í 10% og annar milljarður til með hækkun kolefnisgjalds. Breyting á auðlegðarskatti á að skila 1,5 milljörðum og með sérstöku vörugjaldi á sölu áfengis og tóbaks í Fríhafnarversluninni í Leifsstöð fást 1,3 milljarðar. Þá er til skoðunar að taka upp nýjan skatt á bankastarfsemi, sem ætti að skila ríkissjóði um milljarð króna.
Steingrímur sagði engin áform uppi um að hækka tekjuskatta einstaklinga, virðisaukaskatt og tryggingagjald. Hins vegar yrðu ekki sérstakar hækkanir á launum ríkisstarfsmanna eða á grunnfjárhæðum bótakerfisins.
Margir telja,að mjög miklar breytingar verði á frumvarpinu í meðförum þingsins.Frumvarpið sé nánast aðeins uppkast.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.