Sunnudagur, 3. október 2010
Erlendar skuldir ríkisins svipaðar og í nágrannalöndunum
Skuldir ríkisins eru ekki jafn háar í alþjóðlegum samanburði og margir halda. Ef áætlun stjórnvalda og AGS gengur eftir verða skuldir ríkisins svipaðar og í nágrannaríkjum okkar og lægri en í bæði Bretlandi og Írlandi. Þá er atvinnuleysi hér það sama og í OECD-ríkjum.
Mark Flanagan fráfarandi yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi léði sérstaklega máls á því í samtali við fréttastofu í vikunni að ef markmið núverandi ríkisstjórnar næðust um hallalausan rekstur ríkissjóðs á árinu 2012, sem allar líkur væru á að yrði raunin, þá væri það magnaður árangur í ljósi þess að hér varð algjört kerfishrun haustið 2008.
Skuldir ríkisins hafa aukist gríðarlega eftir bankahrunið, en útlitið er ekki jafn dökkt í alþjóðlegum samanburði og margir halda. Ef fram heldur sem horfir og endurreisnaráætlun stjórnvalda og AGS gengur eftir verða opinberar skuldir Íslands ekki verulega hærri en í flestum nágrannaríkjum okkar innan örfárra ára.
Í kynningu fjármálaráðuneytisins á fjárlögum næsta árs kemur fram að opinberar heildarskuldir Íslands í lok árs 2009, þ.e bæði ríkisins og sveitarfélaga, séu áætlaðar 88 prósent af landsframleiðslu, sem er töluvert umfram opinberar skuldir hinna Norðurlandanna. Opinberar skuldir Írlands og Bretlands hafi einnig verið lægri, en þær eru þó taldar hækka í tæp 100 prósent af landsframleiðslu í lok næsta árs.
Þá er hrein skuld hins opinbera á Íslandi verulega lægri, eða um 60 prósent af landsframleiðslu, sem er svipað og jafnvel lægra en hjá mörgum vestrænum ríkjum. Hrein skuld hins opinbera sé að mörgu leyti betri mælikvarði á skuldastöðu þjóðarbúsins að mati embættismanna fjármálaráðuneytisins, þar sem þá sé ekki aðeins litið á skuldahlið hins opinbera heldur dregnar frá útistandandi lán og kröfur.
Annar mælikvarði á stöðuna er atvinnuleysi, en það var 8,7 prósent á öðrum ársfjórðungi. Atvinnuleysi í OECD-ríkjunum er að meðaltali á svipuðu róli og það er hér á landi eða á bilinu 8-9 prósent. (visir.is)
Ýmsar hagtölur Íslands hafa þróast til betri vegar að undanförnu.En eftir er að gera fullnægjandi ráðstafanir til aðstoðar heimilinum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.