Fólk fær áfram frest á nauðungarsölum

Í stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem hún flutti á Alþingi í  gærkvöld, kom meðal annars fram að ríkisstjórnin mun áfram tryggja fólki rétt á að geta fengið frest á nauðungarsölu meðan unnið er að úrlausn mála viðkomandi einstaklinga hjá lánastofnunum. Ráðherra fór yfir það helsta sem framundan er á vettvangi ríkisstjórnarinnar og einnig hve miklu hefði verið áorkað undanfarin misseri.

Forsætisráðherra sagði skuldaaðlögun eitt meginverkefni ríkisstjórnarinnar sem hefði lagt sig alla fram um að mæta vandanum. Svo verði áfram. „Talið er að 60-80 þúsund manns hafa notið margvíslegra úrræða og við höfum gjörbreytt réttarstöðu skuldara til hins betra frá því sem var fyrir hrun. Fólk sem ekki ræður við skuldir sínar á að geta fengið þær lagaðar að greiðslugetu og verðmæti eigna. Allt frá febrúar 2009 hafa ríkisstjórnin og Alþingi staðið fyrir frestunum á nauðungarsölum. Þann tíma átti að nýta til þess að gefa fólki svigrúm til þess að vinna úr sínum málum. Við munum áfram tryggja fólki þann rétt að geta fengið frest á nauðungarsölu, á meðan að unnið er að úrlausn mála viðkomandi einstaklinga hjá lánastofnunum,“ sagði Jóhanna sem hefur orðið fyrir vonbrigðum með hvernig bankarnir hafa tekið á skuldaaðlögun fólks og fyrirtækja. Við það verði ekki unað og stjórnvöld krefjist skýringa og úrbóta. Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar sé að fara yfir húsnæðis- og skuldamál einstaklinga og útfæra frekar. Fimm ráðherrar vinni sérstaklega að þessu og jafnframt verði fulltrúar allra flokka á Alþingi kallaðir til þeirra verka.

Jóhanna fór yfir hvað efst er á baugi í atvinnumálum, helstu fyrirhugaðar framkvæmdir og verkefni. „ Þótt stærsta einstaka átakið í atvinnumálum sé að koma hér á hagstæðum skilyrðum fyrir atvinnulífið með lægri vöxtum, afnámi gjaldeyrishafta og eðlilegu aðgengi að fjármagni til uppbyggingar hefur ríkisstjórnin jafnframt beitt sér fyrir margvíslegum sértækum aðgerðum til að örva atvinnulífið og berjast gegn atvinnuleysi. Atvinnumálin eru og verða eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar. Alþingi hefur nú heimilað stofnun félaga í eigu ríkisins um ákveðnar stórframkvæmdir og standa yfir viðræður við fulltrúa lífeyrissjóða um fjármögnun. Þátttaka lífeyrissjóðanna gerir samgönguyfirvöldum kleift að ráðast fyrr í umfangsmiklar framkvæmdir en auk þess er unnið að framkvæmdum við byggingu nýs háskólasjúkrahúss, nýs fangelsis og nýrra samgöngumiðstöðva í Reykjavík og á Akureyri.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband