Vextir lækka um 0,5% stig í nóv.- verðbólgan 2,4% í lok ársins

Greining Íslandsbanka reiknar með því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka stýrivexti bankans um 0,50 prósentustig á næsta vaxtaákvörðunardegi, þann 3. nóvember næstkomandi. Við þetta lækka vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana í 4,25% og vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 5,75%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að eftir síðustu vaxtaákvörðun lýsti peningastefnunefndin því yfir að eitthvert svigrúm væri enn til staðar til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist, og verðbólga hjaðnaði eins og spáð er. Um er að ræða viðlíka yfirlýsingu og eftir síðustu vaxtaákvarðanir nefndarinnar nema nú er búið að bæta inn „eitthvert" sem kann að benda til þess að vaxtalækkunarferillinn sé að nálgast botninn.

Viðskiptavegið meðalgengi krónunnar er nú viðlíka því sem það var við síðustu vaxtaákvörðun nefndarinnar en gengi krónunnar hefur haldist stöðugt þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi á tímabilinu keypt gjaldeyri til að efla þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er fenginn að láni. Gjaldeyrishöftin, afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd ásamt vaxtamun við helstu viðskiptalönd Íslands eru meðal þeirra þátta sem hafa haldið krónunni stöðugri.

Verðbólgan hefur einnig haldið áfram að hjaðna og í takti við það sem reiknað var með. Við síðustu vaxtaákvörðun stóð verðbólgan í 4,5% en er nú 3,7%. Þegar ekki er tekið tillit til áhrifa óbeinna skatta minnkaði verðbólgan á þessu tímabili úr 3,8% niður í 2,9%.

„Við teljum að verðbólgan hjaðni áfram á næstunni og reiknum með því að hún fari niður í 3,0% í október og verði komin niður í 2,4% í lok ársins. Það þýðir að Seðlabankinn nær þá loks hinu langþráða verðbólgumarkmiði sínu en það verður í fyrsta sinn frá vordögum árið 2004. Verðbólgumarkmiðið næst nú í október ef frá eru talin áhrif óbeinna skatta. Þá er verðbólguálag á skuldabréfamarkaði á bilinu 2,5% til 3,1% eftir tímalengdum og því nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans," segir í Morgunkorninu.(visir.is)

Björgvin Guðmundsson



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband