Sunnudagur, 24. október 2010
Kjör aldraðra hafa versnað meira en láglaunafólks
Verkalýðshreyfingin hefur nú á ný tekið ákveðna afstöðu með lífeyrisþegum,öldruðum og öryrkjum.Í ályktun sem samþykkt var ársþingi ASÍ segir,að lífeyrir aldraðra og öryrkja eigi að hækka í samræmi við launaþróun.Það hefur ekki gerst frá því kreppan hófst.
Stefán Ólafsson formaður stjórnar Tryggingastofnunar hefur haldið því fram undanfarið, að kjör aldraðra hafi ekki versnað eins mikið og kjör launþega.Það er ekki rétt.Láglaunafólk hefur fengið 16% kauphækkun,ca. 24 þús.kr. hækkun á launum frá 1.júlí 2009.Á sama tíma hafa lífeyrisþegar ekki fengið eina krónu í hækkun á lífeyri sínum.Þvert á móti hafa lífeyrisþegar mátt sæta kjaraskerðingu.Kjör þeirra voru skert 1.júlí 2009 sama dag og kaup láglaunafólks hækkaði.Með þeim kauphækkunum,sem láglaunafólk hefur fengið, hefur sá hópur að mestu fengið uppbætta verðbólguna en aldraðir og öryrkjar hafa mátt bera hana bótalaust frá 1.jan. 2009.Kjaraskerðingin af völdum gengisfalls krónunnar hefur skollið af fullum þunga á öldruðum og öryrkjum.Matvæli og aðrar nauðsynjavörur hafa stórhækkað vegna hækkana innfluttra vara.Einnig hafa lyf stórhækkað en sú hækkun bitnar mjög þungt á öldruðum og öryrkjum.Í þessu sambandi þýðir ekkert að benda á kjarabætur,sem hluti lífeyrisþega fékk 2007-2008,þegar dregið var úr tekjutengingum.Það var þá sett 100 þús. kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna.Það gagnaðist aðeins þeim sem voru á vinnumarkaðnum en ekki þeim,sem hættir voru að vinna.Núverandi ríkisstjórn hefur lækkað þetta frítekjumark í 40 þús. á mánuði hjá öldruðum.Þeir,sem hættir voru að vinna vegna heilsubrests eða af öðrum ástæðum fengu engar kjarabætur á þessum tíma,ef frá er talinn 400 manna hópur aldraðra sem er á strípuðum bótum.Sá hópur fékk lágmarksframfærsluuppbót.Stjórnvöld,þar á meðal Tryggingastofnun,miðar allt við lífeyri þessa 400 manna hóps. Sá lífeyrir er í dag 180 þús. á mánuði fyrir skatta en 157 þús. eftir skatta.Þegar sagt er,að kjör aldraðra hafi verið varin í kreppunni er átt við þennan 400 manna hóp.Sá hópur er talinn sæll með 157 þús. kr. á mánuði.En ekki er tekið fram,að þessi upphæð lækkar um 27 þús. kr. á mánuði hjá þeim ölduðum sem búa ekki einir.Og sá hópur er mikið stærri.
Það er sama hvað sérfræðingar fara í mikla talnaleikfimi.Staðreyndin er sú,að kjör aldraðra og öryrkja hafa stórversnað í kreppunni.Þau hafa versnað meira en hjá láglaunafólki. Á þessu bera stjórnvöld ábyrgð,þar á meðal formaður stjórnar TR.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.