Kristján Gunnarsson: Laun verða að hækka

Laun verða að hækka, kaupmátturinn að aukast og fjölga verður störfum. Þetta segir Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands að sé félagsmönnum efst í huga varðandi kjaraviðræður, sem hefjast í næsta mánuði. Hann býst ekki við að launþegar verði tilbúnir að semja til langs tíma.

Viðræður um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefjast á næstu vikum. Kristján  segir að innan skamms verði kröfugerðin mótuð, en nú þegar eru helstu línur farnar að skýrast. Hann segir ljóst að launþegum sé það efst í huga að hækka launin. Fólk leggi mikla áherslu á kaupmáttinn og að snúa þróuninni við og koma kaupmættinum upp aftur. Einnig sé mjög sterk krafa um atvinnuuppbyggingu.

Kristján segir vonir vera farnar að kvikna á Suðurnesjum um að framkvæmdir við álver í Helguvík og tengd verkefni fari á skrið fljótlega, eftir að ýmsar jákvæðar fréttir hafi borist undanfarið, þar á meðal um orkuöflun og um viðræður Norðuráls og HS orku. Enn þyki mönnum þó hægt ganga.

Fjármálaráðherra varaði við væntingum um launahækkanir í liðinni viku og taldi ekki vera miklar innistæður fyrir þeim. Kristján segist vera alvanur slíkum söng í hvert sinn sem kjaraviðræður hefjist. Vissulega séu atvinnugreinar misjafnlega í stakk búnar til að hækka laun, en ekki verði hjá því komist að bæta kjör fólks nú og þar sé hið opinbera ekki undan skilið. Ljóst sé að ríkið og sveitarfélög þurfi að hækka laun. Reikningar á heimilum séu ekki að ganga upp.

Kristján býst ekki við að samið verði til langs tíma, launþegar treysti ekki stjórnvöldum þar sem þau hafi ekki staðið við gefin loforð. Ekki sé búið að hækka skattleysismörk þó það hafi verið hluti af kjarasamningum. Það vanti töluvert upp á, þar sem ekki sé búið að verðbæta persónufrádráttinn eins og lofað hafði verið.(ruv.is)

 

Björgvin Guðmundsson

 


    « Síðasta færsla | Næsta færsla »

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband