Sunnudagur, 24. október 2010
ESB:Áskorun á flokksforustu VG um að stöðva aðildarviðræður
Á málþingi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um utanríkismál sem fram fór um helgina var lögð fram áskorun,í nafni 100 kjósenda og félaga í VG, um að flokksforystan stöðvi yfirstandandi aðlögunarferli að ESB. Þeir sem standa að áskoruninni vilja að stefnu VG verði fylgt í orði og á borði. Þeir sem að áskoruninni standa segja að ekki hafi verið um eiginlega undirskriftasöfnun að ræða heldur sjálfsprottið framtak og fleiri nöfn hafi bæst í hópinn síðan að áskorunin var birt á föstudag.
Þeir sem standa að áskoruninni segja að á því rúma ári sem liðið sé frá því naumur meirihluti Alþingis tók ákvörðun um aðildarumsókn hafa forsendur breyst í grundvallaratriðum. Umsóknin snúist ekki lengur um að kanna hvað í boði sé af hálfu ESB, eins og áður hafi verið látið í veðri vaka, heldur sé nú að hefjast flókið ferli aðlögunar að regluverki og stofnanakerfi ESB með milljarða fjáraustri frá Brussel. Slíkar greiðslur frá Evrópusambandinu geri að engu þær vonir að hér fari fram lýðræðisleg og hlutlæg umræða um kosti og galla aðildar.
Í öðru lagi hafi komið skýrt fram hjá stækkunarstjóra ESB að Evrópusambandið veiti ekki varanlegar undanþágur frá meginreglum Lissabonsáttmálans. Er þar meðal annars átt við þá reglu að Evrópusambandið taki sér úrslitavald til yfirráða yfir sjávarauðlindum aðildarríkjanna. Nýleg viðbrögð Evrópusambandsins við veiðum íslenskra skipa á makríl í íslenskri lögsögu sýni áþreifanlega hvers sé að vænta ef þjóðin afsali sér samningsrétti um veiðar úr deilistofnum í hendur ESB.
Þeir sem stóðu að undirskriftasöfnuninni eru Anna Ólafsdóttir Björnsson, Brynja Björg Halldórsdóttir, Bjarni Harðarson, Gunnar Guttormsson og. Ragnar Arnalds.(visir.is)
Málþingið hafði ekkert vald innan VG þannig,að ólíklegt er,að áskorun á flokksforustuna muni hafa áhrif. Ef VG mundi vilja stöðva aðildarviðræður mundi það jafngilda stjórnarslitum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.