Sunnudagur, 7. nóvember 2010
Íslendingar og Norðmenn borga lægstu tekjuskattana
Þrátt fyrir skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru tekjuskattar lægstir á Íslandi og Noregi af öllum Norðurlöndunum. Í Noregi eru tekjuskattar einstaklinga ásamt tryggingagjöldum 47,8 prósent en hæst 46,3 prósent á Íslandi.
Af öllum Norðurlöndunum eru Norðmenn og Íslendingar með lægstu tekjuskattana, að því er fram kemur í alþjóðlegri samantekt KPMG á tekjusköttum ríkja. Tekjuskattar verða hæst 46,3 prósent á Íslandi með tryggingagjaldi en 47,8 prósent í Noregi. Í þessu samhengi er rétt að minna á að fyrir skattahækkanir núverandi ríkisstjórnar fóru tekjuskattar einstaklinga á Íslandi hæst í 37,2 prósent með tryggingagjaldi.
Ef bornir eru saman tekjuskattar ásamt tryggingagjaldi meðal OECD-ríkja kemur það ekki sérstaklega á óvart að Svíar tróna á toppnum með 56,6 prósent tekjuskatta. Inni í þeirri tölu eru þó ekki bara tekjuskattarnir, heldur einnig lífeyrissjóðsgreiðslur sænskra launþega og margvísleg önnur réttindi.
Danir fylgja Svíum fast á eftir með 55,4 prósent tekjuskatt, en þar sér hið opinbera einnig um greiðslur í lífeyrissjóði fyrir launþega. Meðal OECD-ríkja koma Hollendingar á eftir Dönum með 52 prósenta tekjuskatt og Englendingar með 50 prósent. Austurríki, Belgía, og Japan deila þessari tekjuskattsprósentu með Englendingum en þar eru skattarnir einnig 50 prósent. Tekjuskattar ásamt tryggingagjaldi í Finnlandi eru 49,6 prósent og 47 prósent á Írlandi.
Í umræðu um skattamál má í þessu samhengi geta þess að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslenska skattkerfið, sem AGS vanna að beiðni íslenskra stjórnvalda og kynnt var í júlí síðastliðnum, kom fram að AGS teldi það skekkja verulega samanburð á íslenska skattkerfinu og kerfinu á hinum Norðurlöndunum að Íslendingar greiða í sjálfstæða lífeyrissjóði til að tryggja sér lífeyri, en á hinum Norðurlöndunum greiðir fólk hærri skatta og ríkið sér alfarið um slík lífeyrismál. (visir.is)
Það er athyglisvert,að þrátt fyrir skattahækkanir hér vegna kreppunnar skuli tekjuskattar hér ásamt tryggingagjöldum verða lægsti á öllum Norðurlöndunum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.