Úrræðin gagnast 60 þús. heimilum

Ríkisstjórnin undirritaði í morgun viljayfirlýsingu við lífeyrissjóðina og lánastofnanir um aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Í henni er meðal annars gert ráð fyrir því að lántakendur sem eru í miklum greiðsluvanda geti fært lán sín niður í allt að 70% af verðmæti íbúðar. Segir í fréttatilkynningu frá stjórnvöldum að um 60 þúsund heimili munu njóta góðs af aðgerðunum.

Viljayfirlýsingin var undirrituð í Þjóðmenningarhúsinu nú kl. 11. Ekki er um endanlegt samkomulag að ræða en samið var um viljayfirlýsinguna milli ríkisstjórnar og lífeyrissjóðanna síðdegis í gær.


Í henni er hnykkt á ákvæðum um sértæka skuldaaðlögun frá árinu 2009 með það að markmiði að flýta aðlögun áhvílandi veðskulda á íbúðarhúsnæði að verðmæti eignanna. Gert er ráð fyrir að eftirstöðvar íbúðarláns verði færðar niður að 110% af verðmæti eignar og skal greiðslubyrði lánanna vera eins og áður hámark 20% af tekjum fyrir skatta. Þau nýmæli eru í viljayfirlýsingunni að hægt verði að færa húsnæðislán að greiðslugetu lántaka þannig að lán samsvari til 70-100% af verðmæti fasteignar og mismunurinn færður á biðlán til þriggja ára, án vaxta og verðbóta.


Gert er ráð fyrir í viljayfirlýsingunni að sjálfskuldarábyrgð umfram eignastöðu ábyrgðarmanns verði felldar niður og að ekki verði gengið að lánsveði á meðan á sértækri skuldaaðlögun stendur. Lánastofnanir eiga að hafa samband við lántaka sem eru í vanskilum og fara yfir aðstæður þeirra og bjóða þeim viðhlítandi lausnir og á því starfi að vera lokið fyrir 1. maí á næsta ári.


Þá hyggst ríkisstjórnin viðhalda sérstakri hækkun vaxtabóta og einnig koma á fót nýrri tegund tímabundinnar vaxtaniðurgreiðslu sem fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðirnir fjármagna. Er reiknað með´að útgjöld vegna þessa liðar nemi 6 milljörðum króna á ári, næstu tvö árin.


Auk þessa felst í viljayfirlýsingunni að lífeyrissjóðirnir greiði götu félagslegra úrræða í húsnæðismálum með kaupum á íbúðabréfum hjá Íbúðalánasjóði. Andvirði bréfanna á að nota til að endurfjármagna útistandandi félagsleg leiguóbúðarlán og fjármagna búseturéttarkerfi.


Fram kemur í viljayfirlýsingunni að hún kalli á frekari útfærslu og að henni lokinni verði samkomulag undirritað.(ruv.is)

Þetta er mjög merkur áfangi hjá ríkisstjórninnni.Og vonandi  gagnast þetta sem flestum,sem eru í vandræðum.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband