Laugardagur, 4. desember 2010
Kaupþing lánaði 800 milljarða til félaga,sem ekki voru í neinum rekstri!
Kaupþing lánaði 800 milljarða til félaga um allan heim sem voru ekki í neinum rekstri. Talið er að einungis verði hægt að innheimta lítinn hluta þessara lána. Lánveitingarnar eru til rannsóknar hjá þrotabúi bankans og hluti þeirra einnig hjá sérstökum saksóknara.
Á vegum skilanefndar Kaupþings starfar sérstök eftirlitsnefnd sem hefur meðal annars það verkefni að halda utan um þann hluta lánasafns þrotabúsins sem samanstendur af lánum, verðbréfum og viðskiptum sem eru til athugunar eða undir rannsókn og því ekki í formlegri innheimtu eða umsýslu.
Fram kemur í kröfuhafaskýrslu bankans að í heild sé verið að rannsaka viðskipti upp á 800 milljarða króna. Með öðrum orðum lánaði bankinn 800 milljarða til félaga sem hafa engan undirliggjandi rekstur.
Þetta er hálf landsframleiðsla Íslands og fimmtungur af heildarútlánum Kaupþings til viðskiptavina. Þetta eru lán veitt inn í flókin félög eða til eignarhaldsfélaga í engum rekstri. Lán eða viðskipti við tengda aðila, þar á meðal eigendur bankans, dótturfélög eða stjórnendur og önnur óvenjuleg lán eða viðskipti. Oft er um að ræða lán án veða eða trygginga.
Fréttastofa hefur áður greint frá þessum lánveitingum en í hverju máli sem er til rannsóknar er fjöldi félaga allt frá einu og upp í 250. Í mörgum tilfellum er um að ræða skúffufélög og ná lánveitingarnar til skattaskjóla víða um heim.
Eins og staðan er núna telur skilanefndin að tæplega 40 milljarðar innheimtist af þessum lánum, en það gæti batnað þegar rannsókn vindur fram en skilanefndin er undir það búin að leggja fram skaðabótakröfur og höfða mál í tengslum við lánveitingarnar. Það hefur verið gert í 11 málum.
Vinnan við að rekja slóð þessara fjármuna er gríðarlega flókin og í mörgum tilfellum verður hún köld í Lúxemborg og erfitt að nálgast frekari gögn og upplýsingar, að því er heimildir fréttastofu herma.
Skilanefnd bankans ákvað nýlega að setja aukna krafta í rannsóknina en lögmannsstofan Grand Thornton í London tekur virkan þátt í henni.
Rannsókn sérstaks saksóknara á málefnum Kaupþings byggir að miklu leyti á þessari rannsókn skilanefndar og er hluti umræddra lána til rannsóknar hjá embættinu.(visir.is)
Það er undarlegt,að sérstakur saksóknari skuli ekki vera búinn að kæra stjórnendur Kaupþings fyrir þetta háttalag.Það er ljóst,að þeir hafa skaðað bankann um hundruð milljarða með óvarkárni í útlánum.
Björgvin Guðmundsson
ar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.