Miðvikudagur, 26. janúar 2011
Verðbólgan 1,8%
Verðbólgan mælist nú 1,8% og hefur ekki verið lægri síðan um mitt ár 2003. Verðbólgan minnkaði úr 2,5% í desember og er þróunin langt frá spám sérfræðinga.
Á vefsíðu Hagstofunnar segir að vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar er 363,4 stig og lækkaði um 0,90% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 346,1 stig og lækkaði um 0,97% frá desember.
Greiningardeildir reiknuðu yfirleitt með að verðbólgan myndi lækka í slétt eða rétt rúm 2%.
Vetrarútsölur leiddu til 10% verðlækkunar á fötum og skóm (vísitöluáhrif -0,66%) og 3,1% verðlækkunar á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. (-0,21%).
Kostnaður vegna eigin húsnæðis minnkaði um 1,8% (-0,22%), aðallega vegna lægra markaðsverðs. Fargjöld í utanlandsflugi lækkuðu um 15% (-0,14%).
Nú er litið á útvarpsgjald sem beinan skatt í stað þjónustugjalds. Breytingin hafði 0,41% áhrif til lækkunar á vísitölunni. Verð á annarri opinberri þjónustu hækkaði um 3,4% (0,25%).
Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,4% (0,21%) og verð á bensíni og olíum hækkaði um 3,1% (0,18%).
Áhrif hækkunar áfengis-, tóbaks-, olíu- og kolefnisgjalda á vísitölu neysluverðs voru 0,21%.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,8% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 2,4%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs lækkað um 0,5% sem jafngildir 2,1% verðhjöðnun á ári (1,8% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis).(visir.is)
Það ert gott,að verðbólgan minnki enn.Þetta minnkar greiðslur af verðtryggðum íbúðalánum o.fl.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.