Langtímaleiga á kvótum:Stærstu kosningasvik sögunnar

Fyrir síðustu alþingiskosningar var mikið rætt um kvótakerfið. Samfylkingin boðaði breytingu á kerfinu,innköllun aflaheimilda á allt að 20 árum.Stjórnarflokkarnir gáfu ekkert undir fótinn með það að útgerðirnar fengju kvótana síðan leigða til langs tíma. Það var ekkert inni í myndinni.Kjósendur reiknuðu með að aflaheimildir yrðu eins og áður leigðar út til skamms tíma eins og verið hefur,til 1-2ja ára eða þá að kvótarnir yrðu boðnir upp á uppboðsmarkaði. Þær hugmyndir sem nú eru komnar fram um að leigja kvótakóngunum veiðiheimildir til langs tíma eru runnar undan rifjum LÍÚ  og þýða alger svik ef framkvæmdar yrðu.Það er lítið gagn í því að innkalla kvótana,ef þeim er samtímis úthlutað aftur til sömu aðila til margra ára.Í dag eru þeir leigðir út til 1 árs í senn.Það þarf ekkert að innkalla kvótana til þess að taka gjald fyrir þá. Kvótarnir falla úr gildi árlega og heimild er fyrir gjaldtöku.Það hefði því verið mögulegt fyrir ríkið að hækka leigugjaldið án þess að setja ný lög um  gjaldtökuna.Og það er skýrt í lögum ,að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar.

 Ég tel ekki koma til greina að leigja kvótakóngunum veiðiheimildir til langs tíma. Best er að fyrna veiðiheimildir smátt og smátt,5% á ári eins og boðað var í kosningunum og kjósendur samþykktu.Síðan má einnig úthluta veiðiheimildum á ný smátt og smátt og láta nýjar heimildir ekki gilda nema í 1-2 ár.Samtímis þarf að hleypa nýjum aðilum inn í greinina.Ef farið væri að leigja kvótakóngum veiðiheimildir til langs tíma,15-25 ára eins og LÍÚ vill,  væru það stórfelld svik á kosningaloforðum. Það væru þá mestu kosningasvik sögunnar.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband