Miðvikudagur, 2. febrúar 2011
Seðlabankinn spáir 2,8% hagvexti í ár
Seðlabankinn spáir nú 2,8% hagvexti á landinu í ár sem er nokkru meira en bankinn spáði í nóvember s.l. Þetta kemur fram í Peningamálum bankans sem gefin voru út í morgun í tengslum við vaxtaákvörðunina.
Viðskiptakjör hafa batnað heldur meira en spáð var í nóvemberhefti Peningamála og útlit er fyrir kröftugri vöxt útflutnings. Utanríkisviðskipti munu því leggja meira til hagvaxtar en þá var talið. Þrátt fyrir hagstæðari viðskiptakjör og meiri afgang á viðskiptum við útlönd er gert ráð fyrir að gengi krónunnar verði heldur veikara en spáð var í nóvember," segir í Peningamálunum.
Talið er að fjárfesting á þremur fyrstu fjórðungum síðasta árs hafi verið nokkru meiri en bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands gefa til kynna. Samdráttur landsframleiðslu á síðasta ári er því talinn hafa verið heldur minni en tölur Hagstofunnar gefa tilefni til að áætla. Í þeirri spá sem nú er birt er gert ráð fyrir að samdrátturinn á síðasta ári hafi verið 2,7%, sem er svipað og spáð var í nóvember.
Horfur eru á áframhaldandi bata innlendrar eftirspurnar á þessu ári og að hagvöxtur verði um 2,8% sem er nokkru meiri vöxtur en spáð var í nóvember. Einnig er spáð heldur meiri hagvexti á næstu tveimur árum eða rúmlega 3% hvort árið.
Vinnumarkaðskönnun fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs gefur til kynna að þróun á vinnumarkaði sé í samræmi við síðustu spá bankans. Útlit er fyrir að atvinna taki að aukast á ný á fyrri hluta þessa árs og að atvinnuleysi taki smám saman að minnka eftir því sem líður á árið. Þróun verðbólgu hefur einnig verið með svipuðum hætti og Seðlabankinn spáði í nóvember og hafa verðbólguhorfur tiltölulega lítið breyst.
Eins og endranær er nokkur óvissa um efnahags- og verðbólguhorfur og efnahagsbatinn brothættur."(visir.is)
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.