Laugardagur, 12. febrúar 2011
Svandís braut lög
Samtök Atvinnulífsins telja synjun umhverfisráðherra á staðfestingu skipulags hreppana við Þjórsá vera bæði ómálefnalega, andstæða lögum og einungis til þess fallna að tefja fyrir mikilvægri uppbyggingu og fjárfestingum hér á landi.
Samtökin telja Svandísi einungis vera að þóknast þröngum pólitískum hagsmunum vinstri grænna með framferði sínu.
Hæstiréttur staðfesti í vikunni niðurstöðu héraðsdóms um skipulag Flóahrepps og kemur þar fram að ákvörðun umhverfisráðherra um að staðfesta skipulagið einungis að hluta hafi verið ólögmæt og að Flóahreppi hafi verið heimilt að innheimta hluta kostnaðar vegna skipulagsvinnunnar hjá Landsvirkjun.
Að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökum atvinnulífsins óskuðu þau eftir því við forsætisráðherra í október að áfrýjun málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar yrði dregin til baka þar sem sýnt var að áfrýjunin væri tilefnislaus og myndi engu skila nema frekari töfum málsins. Þannig hljóti forsætisráðherra að íhuga stöðu umhverfisráðherra sem þannig gengi fram.
Fréttastofa stöðvar tvö greindi hins vegar frá því í gærkvöld að forsætisráðherra telur málið ekki tilefni til afsagnar umhverfisráðherra.(visir.is)
Það er alveg ljóst samkvæmt dómi Hæstaréttar,að umhverfisráðherra hefur brotið lög með úrskurði sínum.Það þýðir ekki fyrir ráðherrann að koma eftir á og segja,að þetta sé ágreiningur um lagatúlkun. Ráðherrann átti að sjálfsögðu að leita hinnar bestu lögfræðiráðgjafar áður en hún greip til þess að synja skipulagi Flóahrepps staðfestingar. Úrskurður Hæstaréttar gildir: Umhverfisráðherra braut lög. Ráðherrann getur ekki afsakað sig með því að hún hafi verið í pólitík.Ráðherrar eru ekki hafnir yfir lög. Þeir verða í pólitísku starfi og ákvörðunum að fara að lögum. Það breytir engu í þessu sambandi þó forsætisráðherra segist vera á móti virkjunum í neðri Þjórsá.Þó umhverfisráðherra hafi einnig verið á móti virkjunum þarna réttlætti það ekki lögbrot. Auk þess er það á valdi heimamanna og Landsvirkjunar hvort þarna verður virkjað.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.