Góður árangur við endurreisn efnahagslífsins

Forsætisráðherra,Jóhanna Sigurðardóttir, skrifar blaðagrein og lýsir árangri ríkisstjórnarinnar við endurreisn efnahagslífsins, Hún  segir svo m.a:

 Ótvíræður árangur hefur náðst í ríkisfjármálum og halli ríkissjóðs, sem var um 216 milljarðar árið 2008, verður kominn í 36 milljarða árið 2011. Góður afgangur er á utanríkisverslun og svo virðist sem viðskiptajöfnuður hafi skilað afgangi sem nemur 3-4% af landsframleiðslu í fyrra. Fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er nýlokið og stefnt er að þeirri fimmtu strax í næsta mánuði. Öll merki benda til þess að Ísland sé komið yfir erfiðasta hjallann. Hagvöxtur er hafinn og skuldabyrðin minni en reiknað var með. Neikvæð staða þjóðarbúsins í lok árs 2010 er á bilinu 57-82% af landsframleiðslu en var um 210% af landsframleiðslu árið 2008.

Gert er ráð fyrir að viðamiklum aðgerðum í skuldamálum 6-7 þúsund lítilla og meðalstórra fyrirtækja ljúki að mestu á komandi sumri. Þessum aðgerðum er ætlað að laga skuldir þessara fyrirtækja að eigna- eða rekstrarvirði þeirra og efla þau til nýrrar sóknar. Breið samstaða hefur nú skapast um lausn Icesave-málsins á Alþingi og vonandi sér nú fyrir endann á þeim erfiðleikum sem málið hefur skapað íslensku efnahags- og atvinnulífi. Lausn þess mun án efa hafa víðtæk áhrif á fjármögnunarmöguleika þjóðarbúsins og stórframkvæmda. Ég fullyrði einnig að nú þegar hafa þúsundir starfa verið varin og ný sköpuð vegna margháttaðra annarra aðgerða stjórnvalda til að styðja við atvinnulífið og hvetja til dáða, m.a. með átaksverkefnum, lagabreytingum, skattaívilnunum, framkvæmdaverkefnum ýmiss konar og fjárfestingarsamningum.

Ég get tekið undir flest atriði í máli forsætisráðherra. Það eru hins vegar velferðarmálin og einkum málefni almannatrygginga sem sitja eftir og hafa ekki verið framkvæmd eins og lofað var fyrir kosningar.Og hið sama er að segja um fyrningarleiðina,stærsta kosningamálið.Ekkert bólar enn á efndum á því kosningaloforði.

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband