Sunnudagur, 20. febrúar 2011
Forsetinn synjaði lögunum staðfestingar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur ákveðið að synja Icesave lögunum staðfestingar. Þar með er ljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla mun fara fram um málið. Alþingi mun á næstu dögum þurfa að koma sér saman um það hvaða dag kosningarnar verða haldnar.
Þegar samningarnir um Icesave voru samþykktir í liðinni viku voru lagðar fram tvær tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna málsins. Þær voru báðar felldar með 33 atkvæðum gegn 30.
Ákvörðun forsetans er tekin á grundvelli 26. Greinar stjórnarskrárinnar. Þar segir:
Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu."
(visir.is)
Forsetinn flutti þau rök m.a. fyrir ákvörðun sinni,að þjóðin hefði farið með löggjafarvaldið í þessu máli í fyrra og ef alþingi ætti eitt að fara með löggjafarvaldið í þessu máli nú þyrfti að vera samhljómur í áliti þings og þjóðar.Mér finnst þetta skrítin röksemdarfærsla.Samkvæmt henni hefði átt að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla á ný um fjölmiðlamálið ef nýtt lagafrumvarp hefði komið fram í málinu fljótlega eftir 1994 ,þar eð löggjafarvaldið í málinu hefði áður verið hjá þjóðinni. Það stenst að sjálfsögðu ekki.Þá virðist forsetinn hafa tekið lítið tillit til þess,að 70% þingmanna studdu nýju Icesavelögin.Hann virðist hafa tekið meira tillit til þess að að 30 þingmenn vildu þjóðaratkvæðagreiðslu en 33 voru á móti. Forsetinn virðist hnoða röksemdirnar eftir "behag".Hann hefur sennilega verið búinn að ákveða fyrir löngu að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ný Icesavelög.Hann lét orð falla í þá átt fyrir mörgum mánuðum á Bloomberg fréttaveitunni.Svo virðist sem Ólafur Ragnar sé að nýta sér óánægju almennings með alþingi og stjórnmálin almennt eftir hrun og láta líta þannig út að hann vilji vísa öllu til þjóðarinnar.Með þessu reiknar hann með að fá auknar vinsældir og að geta boðið sig fram á ný við forsetakosningar.
Björgvin Guðmundsson
.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.