Laugardagur, 26. febrúar 2011
Meirihluti alþingis með skipan stjórnlagaráðs
Þótt einhverjir stjórnarliðar kunni að greiða atkvæði gegn tillögu um skipan stjórnlagaráðs má ætla að meirihluti sé fyrir henni á Alþingi. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að flestir í þingflokknum hafi verið þeirrar skoðunar að kosið yrði nýtt stjórnlagaþing en það kunni að breytast.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagðist í gær ekki myndu styðja tillögu um skipan stjórnlagaráðs, hlíta ætti úrskurði Hæstaréttar en ekki fara í skemmri skírn. Lögfræðiprófessorar hafa líka gagnrýnt stjórnlagaráðsleiðina. Stjórnarliðar á Alþingi eru 35 og stjórnarandstæðingar 28. Alger einhugur er innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að greiða atkvæði gegn tillögunni. Hins vegar eru allir þrír þingmenn Hreyfingarinnar fylgjandi því að þeir 25 sem kjörnir voru á stjórnlagaþing taki sæti í stjórnlagaráði. Sá liðsauki kemur sér vel fyrir ríkisstjórnarflokkanna úr því ekki er einhugur í röðum þeirra.
Höskuldur Þórhallsson var fulltrúi framsóknar í nefnd um stjórnlagaþing, og er fylgjandi tillögu nefndarinnar um stjórnlagaráðið. Þingflokkur Framsóknar var hins vegar klofinn í afstöðu sinni á fundi þingflokksins í vikunni. Þingflokksformaðurinn, Gunnar Bragi Sveinsson, segir að í raun hafi flokkurinn sett þetta í hendur sinna fulltrúa í nefndinni. Þeir hafi ekki fengið neina línu frá þingflokknum um hvað ætti að verða ofan á. Persónulega finnist honum þó, að það eigi að byrja algerlega upp á nýtt. Hann hafi ekki keypt þau rök sem eru fyrir nefndinni.
Gunnar Bragi segir að flestir í þingflokkunum í hafi verið á því að byrja upp á nýtt. En það segi samt ekkert til um það hver niðurstaðan endanlega verði, en flest sjónarmið hafi verið í þá átt.(ruv.is)
Úr því,sem komið er þá er skipan stjórnlagaráðs besta leiðin til undirbúnings nýrri stjórnarskrá. Það verða þá þeir 25,sem kosnir voru á stjórnlagaþing,sem munu skipa stjórnlagaráð,sem starfa mun á sama hátt og stjórnlagaþing átti að gera.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.