Laugardagur, 5. mars 2011
Sparisjóðurinn í Keflavík og Landsbankinn sameinast
Í hádeginu var undirritaður samningur milli fjármálaráðherra og Landsbanka Íslands um yfirtöku og samruna Landsbankans við Spkef sparisjóð samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.
Í tilkynningunni segir ennfremur að það sé mjög áríðandi að finna rekstri sparisjóðsins varanlegan farveg. Miðað við mat stjórnenda sparisjóðsins, sem kemur fram í bréfi dags. 25. febrúar s.l., var staða hans þannig um áramótin að eigið fé hans var neikvætt um 11,2 milljarða og samtals vantaði því 19,4 milljarða upp á að hann uppfylli kröfur FME um lágmarks eigið fé.
Að auki hefur Spkef sparisjóður átt við verulegan og viðvarandi lausafjárvanda að etja og hafa viðskipti hans við Seðlabanka Íslands verið bundin skilyrðum um ábyrgð af hálfu ríkissjóðs vegna innstæðna. Af framangreindu er ljóst að rekstur og möguleikar Spkef sparisjóðs til að standa við skuldbindingar gagnvart innstæðueigendum og öðrum viðskiptamönnum er alfarið háð beinum stuðningi og ábyrgð af hálfu ríkisins.
Með þessari ráðstöfun er tryggt að útgjöld ríkissjóðs vegna Spkef takmarkst við það sem á vantar að heildareignir sparisjóðsins svari til innstæðna. Ríkissjóður mun ekki leggja sjóðnum til nýtt eigið fé, en nýtt eigið fé hefði þurft að nema 8,2 ma.kr. skv. mati Spkef.
Samruni Spkef sparisjóðs við NBI hf. raskar ekki uppgjöri milli Spkef sparisjóðs og fyrirrennara hans, Sparisjóðnum í Keflavík. Einnig er ljóst að samruninn hafi engin áhrif á rétt slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík til aðgangs að gögnum og upplýsingum um mál sem þar eru til rannsóknar sem slitastjórnin eða aðrir kynnu síðar að vilja hefja rannsókn á.
Ljóst er að samruni Spkef við Landsbankann hefur umtalsverðar breytingar í för með sér fyrir starfrækslu sparisjóðakerfisins. Bankasýsla ríkisins mun á næstu vikum eiga samráð við einstaka sparisjóði og fjármálastofnanir um málefni sparisjóðanna, en Bankasýslan undirbýr stefnumörkun varðandi framtíðarfyrirkomulag á starfsemi þeirra sparisjóða sem Bankasýslan fer með eignarhluti í.
Landsbankinn hefur upplýst fjármálaráðuneytið um að hann hyggst hafa náið samráð við starfsmenn og heimaaðila á starfssvæði sparisjóðsins vegna þeirra breytinga sem nú verða. Hefur verið lögð á það áhersla af hálfu fjármálaráðherra að tekið verði ríkt tillit til atvinnu- og þjónustuhagsmuna á starfssvæði sparisjóðsins á Suðurnesjum og á norðvestanverðu landinu.
(visir.is)
Þetta var skynsamlega ráðið af ríkinu.Þetta kostar ríkið 11 milljarða en ef Sparisjóðurinn í Keflavík hefði verið endurreistur hefði það kostað ríkið 8 milljörðum meira.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.