Miðvikudagur, 9. mars 2011
Sigurður Einarsson fyrrv. formaður stjórnar Kaupþings handtekinn í London
Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings og Robert Tchenguiz, sem var stærsti viðskiptavinur bankans, voru handteknir í Lundúnum í morgun í sameiginlegri aðgerð Serious Fraud Office í Bretlandi og embætti sérstaks saksóknara á Íslandi.
Húsleit var gerð á skrifstofum tveggja fyrirtækja í Lundúnum í morgun og á heimilum átta einstaklinga, en sjö voru handteknir í aðgerðinni sem SFO réðst í með fulltingi lögreglunnar í Lundúnum og Essex. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru Robert Tchenguiz, bróðir hans Vincent, Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings Singer&Friedlander, og Sigurður Einarsson meðal hinna handteknu en þeir voru handteknir klukkan hálfsex í morgun. Var húsleit m.a gerð á skrifstofu Rotch Property, sem er fasteignafélag í eigu Vincent Tchenguiz. Húsleitirnar og handtökurnar tengjast falli Kaupþings banka, samkvæmt upplýsingum frá Serious Fraud Office. Hundrað þrjátíu og fimm lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum.
Í Reykjavík var gerð húsleit á heimilum tveggja einstaklinga og tveir voru handteknir. Nöfn hinna handteknu á Íslandi hafa ekki fengist upp gefin, en þeir eru sagðir 42 og 43 ára. Ráðist var í þessar húsleitir og handtökur að beiðni Serious Fraud Office en lögreglumenn og rannsakendur frá embætti sérstaks saksóknara sáu um aðgerðirnar ásamt fulltrúum SFO. (visir.is)
Þessar aðgerðir benda til þess,að sérstakur saksóknari sé að nálgast það að gefa út einhverjar ákærur. Almenningi finnst hægt ganga að rannsaka þessi efnahagsbrotamál bankamanna í aðdraganda hrunsins og undarlegt,að engar ákærur skuli hafa verið gefnar út.Fréttir af bönkunum benda til þess að þar hafi verið brotin lög,verið um markaðsmisnotkun að ræða o.fl.Þeir,sem eru sekir verða að svara til saka.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.