Tryggingastofnun 75 ára

Lög um almannatryggingar tóku við af lögunum um alþýðutryggingar 1. janúar 1947. Undanfari þeirra var að ný ríkisstjórn Ólafs Thors tók við völdum árið 1944. Hana skipuðu ásamt Sjálfstæðisflokki, Alþýðuflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn. Í sáttmála stjórnarinnar sagði að hún hefði ákveðið að komið yrði á næsta ári svo fullkomnu kerfi almannatrygginga, “sem nái til allrar þjóðarinnar, án tillits til stétta eða efnahags, að Ísland verði á þessu sviði í fremstu röð nágrannaþjóðanna.” Milliþinganefnd undir forystu Haralds Guðmundssonar samdi frumvarp til laga um almannatryggingar á grundvelli tillagna Jóns Blöndal, hagfræðings, og Jóhanns Sæmundssonar, tryggingayfirlæknis.

Alþýðutryggingin frá 1936 bauð upp á fábreyttar tryggingar; elli- og örorkubætur, slysabætur til nokkurra stétta og sjúkrabætur. Nýju almannatryggingalögin voru víðtækari og sameinuðu flestar opinberar tryggingar í eitt kerfi. Margvíslegir nýir bótaflokkar voru teknir upp, nefna má fjölskyldubætur til barnmargra fjölskyldna, sjúkradagpeninga, slysabætur til allra launþega, fæðingarstyrk, ekkjubætur og barnalífeyri. Þá var greiðsla meðlaga falin Tryggingastofnun ríkisins og stofnuninni var falin yfirstjórn allra sjúkrasamlaga. Aðrar helstu breytingar voru þær að greiðsla elli- og örorkubóta var flutt frá sveitarfélögunum til Tryggingastofnunar.

Næstu tvo áratugi var almannatryggingalöggjöfin nokkrum sinnum endurskoðuð og á henni gerðar breytingar sem flestar miðuðu að hækkun bóta og að auka rétt lífeyrisþega og sjúkratryggðra. Árið 1955 var Atvinnuleysistryggingasjóður stofnaður, en atvinnuleysistryggingakafli alþýðutryggingalaganna hafði í raun aldrei komið til framkvæmda. Ákvæði um greiðslu fjölskyldubóta (barnabóta) var rýmkuð og samþykkt var að stofna endurskoðunardeild innan Tryggingastofnunar sem tók til starfa 1965. Sama ár kom út fyrsta tímarit stofnunarinnar, Félagsmál.

Árið 1970 færðist Tryggingastofnun frá félagsmálaráðuneytinu til nýstofnaðs ráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins. Fyrsti ráðherra þess var Eggert G. Þorsteinsson. Eitt af hans fyrstu verkum var að koma í framkvæmd nýrri heildarlöggjöf um almannatryggingar sem samþykkt var í apríl 1971. Þar var m.a. reynt að tryggja lífeyrisþegum ákveðnar lágmarkstekjur með greiðslu tekjutryggingar til þeirra, sem litlar eða engar tekjur höfðu aðrar en bætur almannatrygginga. Þá var gefin heimild til að greiða örorkustyrk vegna barna innan sextán ára aldurs, ef fötlun þeirra hafði í för með sér mikil útgjöld eða umönnun.

(Vefur TR)

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband