Föstudagur, 8. apríl 2011
Verkamannabústaðirnir við Hringbraut friðaðir
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur friðað verkamannabústaðina við Hringbraut og mannvirki á Héðinsvelli við Hringbraut að tillögu Húsafriðunarnefndar.
Verkamannabústaðirnir við Hringbraut voru byggðir í þremur áföngum á árunum 1931-1937. Markmiðið með byggingu þeirra var að tryggja almenningi aðgang að vönduðum húsakosti og heilsusamlegu umhverfi. Fyrstu bústaðirnir voru reistir í tveimur áföngum vestan Hofsvallagötu, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins, og mynda þeir samfellda húsaröð kringum stórt sameiginlegt port. Nokkrum árum síðar voru byggðar nokkrar húsalengjur til viðbótar austan Hofsvallagötu, eftir teikingum Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts.
Í tilkynningu húsafriðunarnefndar kemur fram að umræddar byggingar séu einstakar í íslenskri byggingarsögu. Þar birtust nýjungar í skipulagi bæði hins ytra og innra umhverfis og hönnun sem markaði straumhvörf í íslenskri byggingarlist. Friðunin nær til allra þriggja áfanganna og tekur til garðveggja og ytra byrðis húsanna. (mbl.is)
Það er vel til fundið að friða verkamannabústaðina við Hringbraut.Það er ekki aðeins,að þessir bústaðir séu einstakir í íslenskri byggingarsögu heldur eru þeir einnig til marks um merkilegt framtak á sviði félagsmála.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.