Föstudagur, 8. apríl 2011
Jóhanna og Dagur skrifa bréf um Icesave
Þau Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar og Dagur B.Eggertsson varaformaður hafa ritað Samfylkingarfólki svofellt bréf:
Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave snýst ekki um ríkisstjórnina. Hún snýst ekki um einstaka flokka, forystumenn þeirra, ESB, EES, AGS eða rétta eða ranga lögfræðilega niðurstöðu.
Þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn snýst um lífskjör á Íslandi og hversu hratt við viljum vinna okkur út úr efnahagshruninu sem hér varð.... Hún snýst um það hvort við Íslendingar viljum ljúka Icesave-deilunni með sátt eins og að hefur verið stefnt undanfarið tvö og hálft ár eða hvort breytt verður um stefnu og slagurinn tekinn fyrir dómstólum og á vettvangi alþjóðlegra stofnana um óráðna framtíð.
Hafni íslenska þjóðin samningnum mun það ekki verða til þess að deilan hverfi heldur eru allar líkur á því að deilan harðni og að framtíðarhagsmunum þjóðarinnar verði þar með stefnt í tvísýnu.
Fyrirliggjandi samningur sem 70% alþingismanna hefur þegar samþykkt, gerir ráð fyrir því að á ríkissjóð gætu fallið 32 milljarðar króna á næstu 5 árum, vegna þeirra 1300 milljarða sem innistæðueigendur áttu á Icesave-reikningunum. Margt bendir til þess að betri heimtur úr þrotabúinu og hraðari útgreiðslur muni lækka kostnað ríkissjóðs enn frekar.
Kostnaður samfélagsins af Icesave-deilunni hefur hingað til fyrst og fremst falist í töfum og auknum útgjöldum við fjármögnun framkvæmda og rekstrar. Óhætt er að fullyrða að sá kostnaður er og verður mun hærri en sú fjárhæð sem mögulega fellur á íslenska skattgreiðendur á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Þeim mun lengur sem málið er óleyst, þeim mun dýrara og skaðlegra verður Icesave fyrir íslenska þjóð.
Í okkar huga er málið afar skýrt. Já við samningaleiðinni lágmarkar áhættu Íslands af Icesave, það lágmarkar kostnað Íslands af deilunni, lágmarkar óvissuna í endurreisnarferli Íslands og veitir atvinnulífi og stjórnvöldum forsendur til að ráðast í auknar fjárfestingar og fjölgun atvinnutækifæra. Já við samningaleiðinni skapar sátt við alþjóðasamfélagið og eykur traust þess á endurreisn Íslands.
Við hvetjum þig til virkrar þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem lýkur á laugardaginn. Úrslit hennar skipta miklu um hag þjóðarinnar og lífskjör Íslendinga næstu misseri og ár. Hvert atkvæði skiptir máli ef mjótt verður á munum. Sameinumst um að eyða óvissunni og lágmarka kostnað samfélagsins af hruninu og segjum JÁ.
Jóhanna Sigurðardóttir
formaður Samfylkingarinnar
Dagur B. Eggertsson
varaformaður
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.