Sunnudagur, 10. apríl 2011
Tæp 60% sögðu nei við Icesave
Icesave lögin voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær.Tæplega 60% sögðu nei.Við munum því hafa þetta mál hangandi yfir okkur næstu árin.Samningaleiðinni hefur með þessum úrslitum verið lokað og dómstólaleiðin tekur við. Hætt er við að hún verði okkur mun óhagstæðari,sérstaklega þar sem útlit var fyrir,að íslenskir skattgreiðendur þyrftu ekkert að borga í Icesave. Eftir að Iceland foods fór í söluferli voru allar líkur á að þrotabú Landsbankans muni greiða allan Icesave reikninginn.En kjósendur voru rökheldir í málinu. Þeir sögðu: Við borgum ekki og jafnvel þó ekkert þyrfti að borga.
En þessi möguleiki að borga ekki neitt hefur nú lokast. Nú taka við málaferli og þau enda með því að við verðum að greiða á bilinu 135 milljarða ( lágmarkstryggingin) til 456 milljarða,fari allt á versta veg.
Ísland þarf nú að svara ESA,Eftirlitsstofnun EFTA en hún heldur því fram,að Ísland hafi brotið EES samninginn. Verði það staðfest hjá EFTA dómstólnum munu Bretar og Hollendingar fara í skaðabótamál við okkur fyrir íslenskum dómstólum.Í besta falli verðum við dæmd til að greiða lágmarkstryggoinguna,135 milljarða í stað 0- 32 milljarða.En verst er,að þessi niðurstaða mun þýða verri lífskjör fyrir Íslendinga. Hún mun fresta uppbyggingunni hér og hagvextinum. Hún mun gera erfiðara fyrir okkur að fá lán erlendis og fáist lán verða þau á verri kjörum en ella. En Íslendingar hafa kosið þetta yfir sig.Þeir hafa kosið verri lífskjör og lengri tíma til þess að vinna sig upp úr kreppunni en ella.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.