Bretar og Hollendingar byrja að fá greiðslur úr þrotabúinu í sumar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi sem minnst áhrif á samskipti Íslands við aðrar þjóðir og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Á blaðamannafundi sem hann hélt fyrir erlenda fjölmiðla í morgun sagði hann að íslensk stjórnvöld hafi haft samband við bresk og hollensk stjórnvöld og greint þeim frá niðurstöðunni.

Á næstu dögum verður rætt við þá sem koma að endurreisn íslenska hagkerfisins svo sem eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Norðurlöndin og Pólland. Steingrímur sagði að mikilvægt væri að viðbrögð stjórnvalda myndu verða fumlaus og yfirveguð. Hann sagði að þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu viljað ná sátt um málið hafi þau alla tíð haldið því til streitu að vafi léki á því hvort Íslendingum bæri að greiða breskum og hollenskum stjórnvöldum vegna innstæðna á Icesave-reikningunum. Steingrímur sagðist ekki telja að niðurstaðan hefði áhrif á umsókn Íslands að Evrópusambandinu enda væri um tvö óskyld mál að ræða. Aðspurður um áhrifin á efnahag landsins sagði Steingrímur mestu skipta í því efni að stjórnvöldum tækist að halda samkomulaginu sem gert hafi verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Ríkisstjórnin sendi í morgun frá sér yfirlýsingu vegna niðurstöðunnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þar segir að að fenginni þessari niðurstöðu muni stjórnvöld svara áminningarbréfi frá Eftirlitstofnun EFTA frá 26. maí sl., að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis. Af hálfu íslenskra stjórnvalda verði lögð áhersla á að meðferð málsins verði hraðað eins og kostur er þar sem óvissa um lyktir málsins sé engum í hag.

Þá segir í yfirlýsingunni að rétt sé að taka fram að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi ekki áhrif á skipti bús Landsbanka Íslands hf., sem fer fram á grundvelli íslenskra laga. Væntingar standi til þess að úthlutun úr búinu hefjist í sumar og góðar líkur séu á að eignir búsins muni að lang mestu eða öllu leyti duga fyrir forgangskröfum vegna Icesave.

Ríkisstjórnin mun nú eiga viðræður um stöðuna við formenn stjórnarandstöðuflokkanna, samtök launafólks og atvinnurekenda í tengslum við stöðu kjaraviðræðna og vinna náið með Seðlabankanum.  Einnig verði viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samstarfsþjóðirnar, hin Norðurlöndin og Pólland, til að freista þess að tryggja hnökralausa framvindu efnahagsáætlunarinnar.

Ljóst sé að nú þurfi að endurmeta forsendur ríkisfjármála- og efnahagsmála og það endurmat muni liggja fyrir í fyrrihluta maí-mánaðar. Segir í yfirlýsingunni að ríkisstjórnin muni halda áfram á þeirri braut uppbyggingar sem mörkuð hafi verið í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, þar sem mikill og ótvíræður árangur hafi náðst.(ruv.is)

Þeir,sem sögðu nei við Icesave, sögðu,að þeir vildu ekki greiða fyrir einkabanka og að þeir vildu ekki greiða skuldir óreiðumanna. En þó nei hafi orðið ofan á þarf íslenska ríkið samt að greiða. Þetta snýst aðeins um hvað mikið þarf að greiða og hvor leiðin er dýrari fyrir Íslendinga,samningaleiðin eða dómstólaleiðin. Hætt er við,að dómstólaleiðin verði eitthvað dýrari.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband