Stjórnarandstaðan gagnrýnir kvótafrumvarp

Forystu stjórnarandstöðunnar líst ekkert á frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á kvótakerfinu. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir það stórt skref afturábak og formaður Framsóknar segir það gallað. Hreyfingin segir það valda vonbrigðum og boðar sitt eigið frumvarp.

Þingflokkar stjórnarflokkanna afgreiddu frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu frá sér í dag. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir málið illa ígrundað og að enginn af fjölmörgum hagsmunaaðilum sem mætt hafi á þeirra fund hafi fundið eitthvað jákvætt í frumvarpinu.


Þetta sé stórt skref afturábak. Með þeirri löggjöf sem byggt hafi verið á hafi náðst mjög miklar framfarir í íslenskum sjávarútvegi, þannig að hann hafi getað lagt þjóðarbúinu til stórkostleg verðmæti undanfarin ár og áratugi. Það séu hagsmunir almennings að það sé gert hagkvæmt að gera út, þannig að sóknin í miðin skili arði, sem síðan muni aftur skila sér til þjóðarinnar í gegnum skatta, gjöld og launagreiðslur.


Formaður Framsóknarflokksins segir að með frumvarpinu séu ráðherra færð of mikil völd og horfið hafi verið frá sögulegu tækifæri að ná sátt um málið. Þótt í frumvarpinu séu nokkur atriði í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins, þá séu önnur það ekki og í rauninni gallar á frumvarpinu. Sem dæmi megi nefna að það hversu hratt sé farið í svokallaða pottamyndun feli í sér að beinlínis sé verið að taka vinnu af einum, sem starfi í sjávarútvegi núna, og ætlast til að einhver annar vinni þessa sömu vinnu.


Hreyfingin segir frumvarpið valda vonbrigðum, það sé ekki sú grundvallarkerfisbreyting sem ríkisstjórnin haldi fram og undirbýr þingflokkur hennar nú sitt eigið frumvarp. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að verið sé að grauta þarna í mýgrút af smáatriðum, smávægilegum breytingum og pottum, og taka upp auðlindagjald sem sé svo lágt að það skipti litlu máli. Það séu mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skuli ekki koma fram með meira afgerandi breytingu á fiskveiðistjórnuninni en þetta.


Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í sjávarútvegsnefnd hafa farið fram á að næsti fundur nefndarinnar verði opinn þar sem áform ríkisstjórnarinnar verði kynnt.(ruv.is)

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband