Þorskkvótinn aukinn um 17 þús. tonn

Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að þorskkvóti á komandi fiskveiðiári verði aukinn  í 177.000 tonn.

Hafrannsóknastofnun kynnti veiðiráðgjöf sína fyrir komandi fiskveiðiár á blaðamannafundi, sem hófst klukkan hálf tólf. Þar kom fram að stofnunin hafi lagt til að þorskkvóti komandi fiskveiðiárs verði aukinn í 177.000 tonn. Aukningin nemur átján prósentum.

Þorskaflinn á nýafstöðnu fiskveiðiári varð á endanum 169.000 tonn, vegna ýmissa viðbótarheimilda og tilfærslu aflaheimilda á milli fiskveiðiára.

Stofnunin telur að verði farið að tilmælum hennar, séu líkur á að þorskaflinn geti vaxið í allt að 250.000 tonn á komandi árum.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar segir að tillagan byggist einfaldlega á mælingum á stofnstærð og þeirri aflareglu að veiða megi 20% af fjögurra ára og eldri fiski.  Aukninguna megi þakka minni sókn og lægra aflahlutfalli, í samræmi við tillögur stofnunarinnar, á undanförnum árum. Því hafi fiskurinn fengið að eldast og vaxa. Auk þess þyngist fiskurinn nú betur en áður þar sem hann hefur meira æti.

Þrátt fyrir aukninguna í þorski leggur stofnunin til að dregið verði úr veiðum á flestum öðrum fisktegundum, til dæmis í ýsu, ufsa, steinbít, skötusel og grálúðu, og þá leggur stofnunin til að dregið verði verulega úr veiðum á grásleppu.

Jóhann segir að þetta hafi verið : fyrirsjáanlegt.  2003 árgangur ýsunnar hafi verið gríðarlega sterkur og nú sé farið að ganga á hann.  Þetta hafi lengi verið fyrirséð. Þá hafi of mikil sókn verið í grásleppu síðustu ár og nú þurfi að takmarka hana.(ruv.is)

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband