Föstudagur, 24. júní 2011
Veiðiheimildirnar á uppboðsmarkað,það er leiðin
Nokkrar umræður hafa orðið um kvótakerfið að undanförnu,þ.e. um það hvort ríkisstjórnin væri að fórna arðsemi og hagkvæmni með tillögum sínum um breytingar á kerfinu.LÍÚ og Sjálfstæðisflokkurinn hafa sagt,að með framkvæmd á tillögum ríkisstjórnarinnar yrði dregið úr arðsemi kerfisins og meira lagt upp úr byggðasjónarmiðum en áður.Árni Páll Árnason ráðherra tók undir þessi sjónarmið í viðtali við sjónvarpið.Hann sagði,að arðsemi og hagkvæmni yrði að vera í fyrirrúmi en hins vegar mætti hækka veiðileyfagjaldið.Nú hafði Árni Páll samþykkt frumvörp Jóns Bjarnasonar eins og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar.En engu er líkara en að nú sé hann að gagnrýna frumvörpin og jafnvel að mæla gegn þeim.
Vera kann að ef tekið er tillit til byggðasjónarmiða og byggðir ekki látnar leggjast í eyði(þar eð farið var með kvótann á brott) þá dragi eitthvað aðeins úr arðsemi kerfisins.Þetta er sama lögmál og það að það er dýrara og óhagkvæmara að halda uppi byggð í öllu landinu en að láta alla Íslendinga búa á suðvestur horninu.En samt viljum við halda uppi byggð í öllu landinu.Kvótakerfið hefur farið mjög illa með mörg sjávarpláss úti á landi. Kvótaeigendur hafa víða úti á landi skilið eftir sig sviðna jörð.
Það er kominn upp klofningur í stjórnarliðinu um kvótatillögur Jóns Bjarnasonar.Það er engan veginn víst,að þær hafi lengur meirihluta. Það væri því skynsamlegast að söðla um nú og leggja til að veiðiheimildirnar færu á uppboðsmarkað.Þá standa allir jafnt að vígi og markaðslögmálin ráða.Þjóðin fengi sannvirði fyrir veiðiheimildirnar. En það yrði þó eftir sem áður að hafa einhverja potta fyrir landsbyggðina.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.